Tillögur að veigamiklum breytingum á reglugerð um leigubifreiðaþjónustu (nr. 324/2023) hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Markmiðið er að tryggja skilvirka og örugga þjónustu fyrir neytendur og efla eftirlit með leigubifreiðaþjónustu. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um reglugerðardrögin en frestur er til og með fimmtudagsins 12. febrúar 2026.
Breytingarnar eru liður í heildarendurskoðun á lagaumhverfi fyrir leigubifreiðaþjónustu. Fyrr í vetur mælti innviðaráðherra á Alþingi einnig fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um leigubifreiðaakstur, en það er nú komið til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd. Breytingar í frumvarpinu varða einkum stöðvaskyldu, rafrænt eftirlit og neytendavernd. Breytingar á reglugerð og frumvarpið eru fyrstu skref í heildarendurskoðuninni en starfshópur skipaður af ráðherra er enn að störfum og mun meta þörf á frekari breytingum.
„Farþegar í leigubifreiðum eiga rétt á öryggi og gagnsæju verðlagi. Jafnframt eiga leigubílstjórar rétt á starfsumhverfi þar sem leikreglur eru skýrar og þeim fylgt eftir. Við innleiðum því nýtt nútímalegt kerfi þar sem skýrar kröfur og virkt eftirlit kemur í veg fyrir óreiðu. Þjónusta leigubifreiða er hluti af daglegu lífi landsmanna og mótar jafnframt fyrstu og síðustu upplifun ferðamanna. Því verður þjónusta að einkennast af trausti, fagmennsku og gestrisni,“ segir Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra.
Helstu breytingar í reglugerð
Breytingar í drögum að reglugerð um leigubifreiðaakstur eru lagðar fram í ljósi fenginnar reynslu og í samræmi við áherslur ráðherra. Helstu tillögur að breytingum eru eftirfarandi:
- Leigubifreiðar verða auðkenndar með sérstöku skráningarmerki (litaðar númeraplötur).
- Samgöngustofu ber að framkvæma árlegt eftirlit með leyfishöfum, koma upp sérstöku áhættumatskerfi og sinna frekara eftirliti á grundvelli þess.
- Samgöngustofu er falið að gera árlega skýrslu um framkvæmd eftirlits.
- Leyfishafa sem hlaut leyfi til aksturs eftir gildistöku núgildandi laga verður gert að þreyta próf við endurnýjun réttinda sinna.
- Próftaka fer fram án utanaðkomandi aðstoðar.
- Samgöngustofu ber að hafa árlegt eftirlit með viðurkenndum námskeiðshöldurum.
- Leigubifreiðastöðvar eiga að setja og birta eigin hátternisreglur. Þeim ber einnig að halda rafræna atvikaskrá um frávik í starfsemi, brot á lögum og kvartanir neytenda.
- Ítarlegri kröfur um framsetningu á verðskrá og sýnileika á leyfisskírteini í leigubifreiðum.
- Leigubifreiðastöðvar skulu halda rafræna skrá yfir allar seldar ferðir og upplýsingar úr henni skulu vera eftirlitsaðilum aðgengilegar í rauntíma í gegnum örugga vefgátt.
- Leyfishafa ber að tilkynna Samgöngustofu um úrskurði eftirlitsaðila, t.d. Neytendastofu, vegna lögbrota. Slík brot geta jafnframt talist brot á góðum viðskiptaháttum og leitt til leyfissviptingar
Áherslur í frumvarpi um breytingar á lögum um leigubifreiðaakstur
Sem fyrr segir lagði innviðaráðherra fram á Alþingi í haust frumvarp um breytingar á lögum um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi árið 2023. Helstu áherslur í frumvarpinu varða einkum stöðvaskyldu, rafrænt eftirlit og neytendavernd.
- Stöðvaskylda – Ekki verður lengur leyfilegt að reka leigubílaþjónustu án þess að tengjast leigubifreiðastöð með gildu starfsleyfi. Leigubifreiðastjórar þurfa að vera skráðir hjá viðurkenndri leigubifreiðastöð.
- Rafrænt eftirlit og varðveisla gagna – Leigubifreiðastöðvar eiga að skrá rafrænt allar ferðir leigubifreiðastjóra (rekstrarleyfishafa) á þeirra vegum, þ.m.t. upphafs- og endastöð, staðsetningu bifreiðar og akstursleið og greiðslur farþega. Stöðvarnar eiga að varðveita upplýsingarnar í minnst 60 daga og er skylt gera árlega úttekt á stafrænum kerfum til að tryggja öryggi gagna.
- Neytendavernd – Leigubifreiðastöðvar skulu bjóða upp á einfalt og gagnsætt ferli fyrir kvartanir og ábendingar, þannig að farþegar geti tilkynnt um óeðlilega hátt verð eða slæma þjónustu. Þá verður leigubílstjórum jafnframt skylt að upplýsa farþega sérstaklega um þessi réttindi sem og möguleika á að kvarta til viðeigandi stjórnvalda hverju sinni.
Frumvarpið var lagt fram í haust og er nú til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsnefnd Alþingis.



