Laugardaginn 5. maí hélt Karlakórinn í Fjallabyggð söngskemmtun í menningarhúsinu Tjarnarborg Ólafsfirði.
Stjórnandi kórsins er Elías Þorvaldsson.

Elías Þorvaldsson söngstjóri, Sara Lind Þorsteinsdóttir og Stefán Friðriksson

Skemmtunin hófst með því að kórinn söng 7 nokkuð hefðbundin karlakórslög sem flutt voru “a capella” eins og sagt er, en orðatiltækið “a capella” er tilkomið vegna þess að í kapellum var yfirleitt ekki hljóðfæri, þannig að þegar sungið var í kapellunni – a capella – var enginn undirleikur.

Björn Þór Ólafsson, elsti kórfélaginn söng einsöng

Því næst kom fram unglingahljómsveitin Ronja og ræningjarnir sem flutti nokkur vinsæl nútíma lög við stórgóðar undirtektir gesta. Þar eru á ferð krakkar sem eiga greinilega framtíðina fyrir sér í tónlistinni. Guðmann Sveinsson tónlistarkennari er lærifaðir þessarar hljómsveitar.

Eftir hlé tók kórinn við keflinu aftur og söng, ásamt hljómsveit kórsins sem lék með. Einsöngvarar með kórnum voru þeir Björn Þór Ólafsson og Birgir Ingimarsson. Nokkra athygli vöktu fjögur stálrör sem kórfélagar léku á í lagi Uriah Heep, Easy Living.

Hér má sjá heimasmíðuðu hljóðfærin, fjögur stálrör sem kórfélagar léku á í lagi Uriah Heep, Easy Living

 

Mæting var virkilega góð, 200 manns í húsinu og viðtökur frábærar.

Hljómsveit karlakórsins skipa: Haukur Orri Kristjánsson harmónikka, Ómar Hauksson bassi, Sigurður Jóhannesson gítar, Sara Lind Þorsteinsdóttir píanó, Stefán Friðriksson trommur, Guðbrandur Gústafsson saxófónn og stjórnandinn Elías Þorvaldsson lék á píanó og orgel.

Ómar Hauksson bassi, Sigurður Jóhannesson gítar og Elías Þorvaldsson píanó

Ronja og ræningjarnir eru: Ronja Helgadóttir söngur, Tryggvi Þorvaldsson gítar og söngur, Júlíus Þorvaldsson gítar og söngur, Hörður Ingi Kristjánsson píanó, Kristján Már Kristjánsson trommur og Mikael Sigurðsson bassi.

Ronja og ræningjarnir

 

Texti: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir