Nú fer umsóknarfrestur um stöðu framkvæmdarstjóra Selaseturs Íslands á Hvammstanga að renna út, hann rennur út laugardaginn 31. október. Með umsókn þarf að fylgja afrit af prófskírteinum, ferilskrá og nöfn tveggja meðmælenda. Um er að ræða fullt starf í eitt ár með möguleika á framlengingu. 

Í starfinu felst m.a. stefnumótun og stjórnun Selaseturs Íslands, öflun rannsóknastyrkja og framkvæmd verkefna á fræðasviðum setursins, uppbyggingu náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, móttaka gesta og miðlun þekkingar og rekstrar- og fjármálastjórnun setursins.

Á heimasíðu setursins kemur fram að Selasetur Íslands var stofnað árið 2005 og hlutverk þess er að standa fyrir rannsóknum á selum og náttúrutengdri ferðaþjónustu. Meginmarkmið setursins er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.