Guðrún Helga Stefánsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf verkefnisstjóra hjá Síldarminjasafni Íslands og hefur hún störf um komandi mánaðarmót.

Guðrún er menntuð í menningarstjórnun, viðskiptafræði og tónlist, og býr að yfir ellefu ára reynslu sem verkefnisstjóri markaðs- og kynningarmála hjá Borgarsögusafni Reykjavíkur.

Fyrir þann tíma starfaði hún meðal annars sem sölustjóri hjá Norðursiglingu og Iceland Travel, auk þess að hafa sinnt verkefnum tengdum sýningarstjórn og hönnun hjá Tónlistarsafni Íslands.

Ráðning Guðrúnar er mikilvægur liðsstyrkur fyrir safnið, sem fagnar því að fá hana til liðs við starfsemina og hlakkar til samstarfsins á komandi misserum.

Mynd/Síldarminjasafnið