Nú fer Grunnskóli Fjallabyggðar að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Það sama á við um verkefnið Göngum í skólann (www.iwalktoschool.org) en það verður sett í þrettánda sinn miðvikudaginn 4. september næstkomandi og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt og fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls 73 skólar skráðu sig til leiks árið 2018.

Grunnskóli Fjallabyggðar tekur þátt í  átakinu og er markmið verkefnisins að hvetja börnin til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka um leið færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Eru allir nemendur sem og starfsfólk grunnskólans hvött til að taka þátt og ganga eða hjóla í skólann þessa daga.

Vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát í umferðinni og taka tillit til skólabarnanna. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að tryggja að börnin þeirra séu vel sýnileg á leið sinni til og frá skóla.

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið en þar má meðal annars finna skemmtilegar útfærslur nokkurra skóla á Íslandi á verkefninu.

Bakhjarlar Göngum í skólann verkefnisins eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Ríkislögreglustjóri, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Embætti landlæknis og landssamtökin Heimili og skóli.