Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra telur að krafa um friðlýsingu svæða við Drangajökul sem myndi koma í veg fyrir Hvalárvirkjun kollvarpi rammaáætlunarferlinu. Alþingi hafi þegar samþykkt að setja virkjunina í nýtingarflokk.
Náttúrufræðistofnun Íslands sem er ríkisstofnun og heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvetur Guðmund Inga Guðbrandsson ráðherra sinn til að friðlýsa svæði við Drangajökul. Slík friðlýsing gæti gert út um hugmyndir um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Samtökin Landvernd taka undir þessa áskorun en ráðherrann var framkvæmdastjóri Landverndar áður en hann var skipaður umhverfisráðherra. Guðmundur baðst undan viðtali í morgun vegna anna en ræðir við fréttastofu eftir hádegi.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra segir kröfuna um friðlýsingu á skjön við það ferli sem löggjafinn hafi sett þennan málaflokk í.
„Það sem mér finnst um það í raun er það sem gerðist á Alþingi 2013 þegar Alþingi samþykkti rammaáætlun og í öðrum áfanga er Hvalárvirkjun í nýtingarflokki og áður en það gerðist þá fór sá virkjanakostur í gegnum mat þar sem farið var í gegnum náttúruminjar, mat á umhverfið og samfélagið. Og þetta var niðurstaðan úr því og þannig eru leikreglurnar og þannig væri það algjör kollsteypa á því kerfi ef menn ætluðu að fara að bakka frá því.“
Og það er ýmislegt sem flækir málið. Bent hefur verið á að í 42. greinlaga um náttúruvernd er kveðið á um bótarétt ríkisins gagnvart landeigenda ef friðlýsing hindrar nýtingu landsins eða gerir hana mun erfiðari. Óljóst er hversu há slík bótakrafa virkjanamanna yrði. Þá er staða Guðmundar Inga snúin því hann talaði opinberlega sem framkvæmdastjóri Landverndar gegn áformum um Hvalárvirkjun áður en hann varð ráðherra. Hvort það gerir hann vanhæfan til að taka afstöðu til málsins sem ráðherra verður að koma í ljós, en þess má geta að hann vék sæti við meðferð máls sem snerti mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar. Þá tók Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við málunum en hún er vel kunnug umhverfisráðuneytinu, enda var hún umhverfisráðherra þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk árið 2013.
Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra segir að verndunarsinnar verði að virða leikreglurnar. „Ég skil vel sjónarmið þessara hópa og þetta er þeirra skoðun, en við erum með fyrirkomulag sem við höfum sammælst um að nota og þar er þessi virkjunarkostur í nýtingarflokki og eftir því hafa menn unnið undanfarin ár og í rauninni finnst mér það vera staðan.“
Frétt: ruv.is