Siglfirðingurinn Einar Ágúst Ásmundsson var meðal keppenda á Ólympíuleikum æskunnar sem fram fóru í Vuokatti í Finnlandi dagana 20. – 25. mars s.l. Einar keppir á snjóbretti og náði góðum árangri í sínum flokki.

Einar Ágúst er fæddur og uppalinn á Siglufirði og steig sín fyrstu skref á skíðum þar, bjó svo í Noregi um tíma þar sem hann tók stóru skrefin á snjóbretti, en hefur búið á Selfossi frá 2019.

Einar hefur unnið til margra verðlauna bæði hérlendis og í Noregi, var meðal annars í fyrsta sæti á FIS móti nýlega.

Foreldrar hans eru Ásmundur Halldór Einarsson og Elín Elísabet Hreggviðsdóttir.

Ásmundur faðir Einars er gamall skíðakappi og Sandra Líf Ásmundsdóttir, systir Einars er landsliðkona á skíðum sem hefur æft mikið í Noregi og verið í skóla þar.

Ásmundur er sonur Einars Hermanns og Maggýjar Jónasar, sem eru þar með afi og amma Einars Ágústs.

Einar Ágúst vill hvetja yngri kynslóðina til að fylgja draumum sínum með slagorðunum: “Ég ætla, get og skal”.

Myndir/aðsendar