Öðru vísi mér áður brá þegar það var Risaball á Hótel Höfn eftir miðnættið á jóladag, Björgunarsveitaballið milli jóla og nýárs sem var líka risastórt og síðan líka ágætt ball á gamlárskvöld auk þess sem það var yfirleitt unglingaball á Alþýðuhúsinu hjá Villa Friðriks.

Rakst á færslu hjá Helgu Skúla sem var greinilega ekki sátt við það sem boðið verður upp á, eða réttara sagt það sem verður ekki boðið upp á í Fjallabyggð um áramótin, en þar skrifar hún:

„Hafði hugsað mér að fara með gesti frá USA til Sigló yfir áramótin.

Búin að lýsa fyrir þeim dásamlega umhverfinu sem ég ólst upp við, skíðabrekkunum, stemningunni úti á götunum kl 24 á miðnætti, ártalinu og ljósunum í Hvanneyrarskálinni, heitu pottunum, sauna og dásamlega arineldinum á Hótel Sigló“.

Ennfremur sagðist hún hafa fengið eftirfarandi upplýsingar:

LOKAÐ á Siglo Hotel 30. des til 5. jan.

LOKAÐ á Rauðku

LOKAÐ á Hannes Boy

LOKAÐ á Siglunesi guesthouse

TORGIÐ: (hægt að fá pizzu 30. des á Torginu / lokað til 5. jan.

Ég athugaði fleiri möguleika nyrðra, en niðurstöðurnar voru jafn sláandi og þær sem Helga lýsir:

LOKAÐ á hinum vinsæla Kveldúlfi

LOKAÐ í Tjarnarborg Ólafsfirði

LOKAÐ í Höllinni Ólafsfirði

Mér tókst ekki að fá upplýsingar um hvort opið eða lokað væri á Harbour Café.

Ég sendi líka fyrirspurn um hvernig opið yrði í Aðalbakaríi, þar var sagt lokað um áramót og 01. jan.

Engar upplýsingar var að hafa á facebooksíðu Kaffi Klöru, en þar er síðasta færslan frá 20. okt. sl.

Samkvæmt vefnum skardsdalur.is var föstudaginn 30. desember tilbúið gönguspor við golfvöll, veðrið N-4 og 7 stiga frost, en svæðið í Skarðsdal lokað vegna of lítilla snjóa.

Mér tókst ekki að finna upplýsingar um skíðasvæðið í Tindaöxl Ólafsfirði.

Í sundhöllinni á Siglufirði og á Ólafsfirði er opið frá 9-11 f.h. 31. des. Rétt rúmlega nægur tími til að fara í sturtu, dýfa stórutánni ofan í laugina og drífa sig svo aftur í sturtu, en lokað 1. jan.

Ég lánaði átta manns lykilinn að Aðalgötu 28 á Sigló, en þau ætluðu að dvelja á þar um áramótin. Það síðasta sem ég heyrði frá þeim var að þau stefndu á að bregða sér til Akureyrar á gamlársdag ef veður og færð leyfði.

Þrátt fyrir að á vefnum „Upplifðu Fjallabyggð“ sé því haldið fram að nyrðra bíði þeirra hlaðborð hugmynda þegar afþreying og gisting er annars vegar, verða þeir sem ætla að dvelja í Fjallabyggð um áramótin væntanlega að taka með sér jöklatjald og gott nesti að sunnan.