Tveir vaskir menn byggja nú sinn hvort húsið á holtinu í Djúpavík á Ströndum


Þarna eru á ferðinni Grétar Örn Jóhannsson og Geir Fannar Zoëga ásamt fjölskyldum sínum. Lóðirnar eru hlið við hlið og búið er að reisa Ólafarhús og taka grunninn fyrir Finnuhúsi.

Ekki hefur verð byggt um langa hríð í Djúpavík. Árið 1993 var reist hús á lóð Vilborgar Traustadóttur sem nefnist Skjaldabjarnarvík. Árið 2009 flutti Héðinn Birnir Ásbjörnsson hús vestur og setti niður á gömlu kaupfélagslóðinni sem hann hafði eignast. Síðan hafa gömlu húsin í Djúpavík verið mörg hver endurnýjuð með myndarlegum hætti.

Fréttamaður Trölla var fyrir vestan á dögunum og fékk viðtöl og nokkrar myndir sem hér fara á eftir

Ég byrja á að taka Grétar og fjölskyldu tali. Eftir að hafa fylgst með þessari samhentu fjölskyldu reisa húsið á ævintýralegum hraða fæ ég að króa þau af í smá spjall.

Grétar Örn Jóhannsson, Katrín Klara Þorleifsdóttir, Elín Embla og Þorvaldur Geir.

Hannaði húsið sjálfur frá a-ö

Af hverju eruð þið að þessu Grétar? Faðir Grétars, Jóhann Ingibjörnsson bjó til 10 ára aldurs hér í Djúpavík, þeir feðgar dvöldu auk þess oft í Veiðileysu og komu alltaf til Djúpavíkur þegar færi gafst.

Hann hefur miklar taugar til staðarins og ömmu sinnar Ólafar og þaðan kemur nafnið en húsið mun heita “Ólafarhús”. Það verður svipað að stærð og eldra húsið nema eilítið háreistara.

Árið 2017 ákváðum við að láta drauminn hans pabba verða að veruleika. Byggjum hér gestahús ásamt verkfæraskúr. Hann varð til þegar það rann upp fyrir okkur að ekki gátum við sofið með sagirnar og verkfærin uppí rúmi. Við vorum hér í fyrsta skipti öll saman sumarið 2018.

Nú erum við fjölskyldan að byggja 50 fm hús brúttó plús svefnloft. Grétar sem er iðnaðartæknifræðingur og rafvirki hannaði húsið sjálfur frá a-ö. Þetta er bara góð fjölskylduskemmtun segir frúin, Katrín Klara kankvís. Að reisa eitt stykki hús.

Ætla að halda jólin í Ólafarshúsi 2020

Hún er úr Húnavatnssýslunni en á ættir að rekja til Byrgisvíkur, þannig að þau eru bæði Strandamenn. Bjartsýnustu plön eru að halda jólin 2020 í húsinu og efumst við ekki um að af því verði m.v. framgang mála. Börnin elska að vera hér og vinna við húsið, fara í sund, á bát og njóta.

Bjartsýnustu plön eru að halda jólin 2020 í húsinu

Aðspurður segir Geir Fannar ástæðuna fyrir sínum byggingaráfornum vera tryggð við Djúpavík

Verið að fleyga þétt móbergið í Sveinsreit

Hvert sumar komum við til Djúpavíkur fjölskyldan frá því ég man eftir mér. Foreldrar mínir (Vilborg Traustadóttir og Geir Þórarinn Zoega) byggðu lítið 30 fm hús á gömlum grunni fæðingarhúss mömmu við hlið hússins sem ég hyggst byggja nú og hefur grunnur þess þegar verið tekinn.

Margar góðar stundir höfum við átt í Djúpavík

Nú í sumar hef ég dvalið ásamt börnunum og fleirum, málað og dyttað að húsi fjölskyldunnar. Heill vinnuflokkur unglinganna í fjölskyldunni vann við það. Auðvitað gafst færi á að fara á bát, í sund og svona. Margar góðar stundir höfum við átt í Djúpavík ásamt fjölskyldunni gegnum árin. 


Byggir tveggja hæða timburhús á steyptum grunni

Húsið mitt verður 60 fm að grunnfleti. Niðurgrafinn steyptur kjallari, ein hæð bárujárnsklætt timburhús með risi og skiptist í tvær íbúðir. 
Ásýnd þess verður mjög svipuð gamla hússins sem eitt sinn stóð á lóðinni.  
Geir Fannar segir það einnig vera auka drifkraft að heiðra minningu þeirra sem gengnir eru. Því mun húsið nefnast Finnuhús, en gamla húsið var kallað það eftir Guðfinnu langömmu minni og mun húsið standa á svonefndum Sveinsreit.

Afi minn Trausti B. Magnússon byggði heimili í Djúpavík ásamt foreldum sínum, systrum og þeirra mökum á sínum tíma eða 1944. Hann stofnaði og sína fjölskyldu hér 1950, flutti hús frá Skjaldabjarnarvík og setti hér niður. 

Geir Fannar er skipstjóri og dvelur mikið í Djúpavík þegar hann er í landi.  

Hér er yfirsýn yfir framkvæmdirnar í Djúpavík


Trölli.is.