Strandveiðar hafa reynst mikilvæg byggðaráðstöfun Í Norðaustur kjördæmi. Þær breytingar sem gerðar voru á strandveiðilöggjöfinni á síðasta kjörtímabili hafa rýrt hlut svæðisins svo um munar og er nú svo komið að fjöldi sjómanna hafa tekið á það ráð að flytja sig á önnur svæði til þess eins að komast að.

Hlutverk strandveiða hefur frá upphafi verið að renna stoð undir sjávarútveg þar sem þess er þörf. Að veita plássum sem voru illa leikin af framsali aflaheimilda eða annarra hrakfalla hlutdeild í sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Að heimila takmarkaðar veiðar þeim sem ekki hafa yfir að ráða aflamarki. Veiðarnar hafa ekki síður veigamikla táknræna þýðingu fyrir byggðirnar í landinu, því að fátt er jafn samgróið þjóðarsálinni og líf í höfnum landsins.

Vonbrigði að ekki skuli skipt jafnt
Frumvarpið sem hæstvirtur sjávarútvegsráðherra lagði af stað með nú í vetur miðaði að því að jafna hlut mismunandi veiðisvæða. Þannig væri meira til skiptanna fyrir þau landssvæði þar sem fiskurinn er seinna á ferð en fyrir vestan land. Tillagan var einföld, að skipta því sem er í pottinum jafnt eftir fjölda báta. Enda er krafan ekki meiri en það í Norðausturkjördæmi, heldur að rétt sé rétt. Þessi sjónarmið náðu ekki fylgi í þinginu í vor og það eru mikil vonbrigði. Það mun þýða, m.v. gang veiðanna það sem af er sumri, að annað árið í röð munu strandveiðisjómenn í Norðausturkjördæmi missa af verðmætasta fisknum.

Samhliða því að auka jafnrétti á milli byggðalaga og auka aðgengi veiðasvæða eftir því sem austar dregur var lagt upp með að tryggja að tonn „brynnu ekki inni“ fyrri part sumarsins eins og vildi vera fyrir breytingarnar á síðasta kjörtímabili.

Þær breytingar sem ráðherrann lagði upp með eru mjög í anda laganna. Það er grundvallaratriði þegar kemur að félagslegum veiðum að skipta gæðunum jafnt. Þeir þættir sem mestu máli skipta fyrir strandveiðar eru náttúrulegir, það er ekki elja sjómanna í öðrum landshlutum sem ræður neinu þar um. Það er fisk gengd og fyrstur kemur, fyrstur fær. Þeir þættir sem við fáum stjórnað fyrir eru því þættir í lögum sem ýta undir jafnvægi á milli veiðisvæða, að því þurfum við að róa öllum árum.

Umbóta er þörf
Það er von mín að strandveiðar vaxi á komandi árum, líkt og þær hafa gert í tíð Svandísar Svavarsdóttur. Ég vil eins og margir félagar mínir í VG sjá stærri hlut af félagslega kerfinu fara í strandveiðipottinn. Ef af því verður er deginum ljósara að þeim gæðum þarf að skipta á milli
landssvæða. Þegar eitthvað virkar ekki tökum við nýjar betri ákvarðanir með hagsmuni allra landssvæða að leiðarljósi.