Á 378. fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra sem haldinn var þann 8. febrúar 2024 var uppfærð stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi samþykkt. Stefnan er sett í samræmi við 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Markmið stefnunnar er að koma í veg fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum Húnaþings vestra og tryggja að úrræði séu til
staðar telji aðili sig hafa orðið fyrir slíkum brotum. Megininntak hennar er að einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er óheimil samkvæmt lögum og er slík hegðun ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins.
Stefnan er unnin í samvinnu við Attentus – mannauð og ráðgjöf sem er bakhjarl Húnaþings vestra í mannauðsmálum. Endurskoðun ferla og verklags í mannauðsmálum stendur nú yfir og er uppfærsla á stefnunni liður í þeirri vinnu. Í henni eru þau sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi, eða orðið vitni að slíku, hvött til að láta vita og leiðir til að tilkynna slíkt kynntar. Jafnframt er farið yfir meðferð slíkra mála, hvort sem um er að ræða formlega málsmeðferð eða ekki, lok þeirra og eftirfylgni.
Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi.