Eins og lesendum trolla.is er mörgum kunnugt hefur spunnist nokkur umræða um þá samþykkt bæjarráðs að hætta að flagga við Ráðhúsið á Siglufirði við andlát og útfarir bæjarbúa.

Í fundargerð bæjarráðs er vísað í vinnuskjal deildarstjóra stjórnsýslunnar þar sem tillagan er lögð fram. Deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármáladeildar í Fjallabyggð er Bragi Freyr Kristbjörnsson.

Trölli.is hafði samband við Sigríði Ingvarsdóttur bæjarstjóra Fjallabyggðar og bauð henni að tjá sig um málið.

Sigríður svaraði um hæl:

“Mér finnst að alltaf eigi að taka tillit til vilja íbúa og hlusta á þeirra álit. Því finnst mér alveg sjálfsagt að þessi ákvörðun sé endurskoðuð. Það er mismunandi milli bæjarfélaga á landinu, hvaða háttur er hafður á, varðandi flöggun við andlát og jarðarfarir.
Þetta er gott tilefni til að fara yfir með hvaða hætti við viljum framkvæma hlutina og setja ákveðið ferli þar um.
Bara svo því sé haldið til haga þá samþykkti bæjarráð málið fyrir sitt leyti en vísaði því til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.”


Mynd/Fjallabyggð