Þann 11. október 2021, veitti Samband íslenskra sjóminjasafna þremur valinkunnum mönnum viðurkenningu fyrir farsæl störf á sviði sjó- og strandminja um áratuga skeið.

Þessir menn hafa starfað hver á sínu sviði en allir skilað sérlega drjúgu og merku lífsverki.

Þetta eru Geir Hólm, Hafliði Aðalsteinsson og Þór Magnússon.

Á myndinni eru f.v.  Helgi Máni Sigurðsson, Hafliði Már Aðalsteinsson, Geir Hólm og Þór Magnússon.

Geir Hólm varð safnstjóri Sjóminjasafns Austurlands á Eskifirði árið 1982 og starfaði við safnið til 75 ára aldurs, til ársins 2008 eða í 26 ár. Hann var meðal annars ötull við söfnun sjóminja á þeim tíma og gerði safnið að einu af merkustu sjóminjasöfnum landsins. Einnig lagði hann mikið af mörkum til varðveislu gamalla báta og ýmissa sögulegra mannvirkja á Austurlandi, meðal annars vitans á Dalatanga og tveggja af elstu húsum Eskifjarðar, Jensenshúss og Randulfssjóhúss.

Hafliði Aðalsteinsson hefur verið starfandi tréskipasmiður alla tíð, lærði fyrst hjá föður sínum og nam síðar við Iðnskólann í Reykjavík. Hann hefur smíðað nokkurn fjölda báta og einnig og ekki síst unnið að viðgerð og endurgerð eldri báta. Hafliði var stofnfélagi og í forystu fyrir Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum sem sett var á stofn árið 2006. Félagið byggir á gjöf föður Hafliða, sem gaf þrjá báta og öll sín tæki til safnsins. Þá hefur Hafliði verið óþreytandi við að efla þekkingu á skipasmíðum og haldið fjölda námskeiða í skipasmíði í samstarfi við IÐUNA fræðslusetur, m.a. í Reykjavík og á Reykhólum.

Þór Magnússon var þjóðminjavörður á árunum 1968-2000. Eitt af þeim sviðum sem hann lét sig miklu varða var sjóminjar og bátavarðveisla. Var hann þar á margan hátt brautryðjandi því að Þjóðminjasafnið og byggðasöfnin höfðu sýnt meiri áhuga á sveitamenningu fyrri tíðar en minjum um sjósókn og siglingar. Í tíð Þórs hófst til að mynda markviss söfnun á gömlum bátum en þá voru söfnin á Íslandi ekki farin að sinna því svo heitið gæti. Þá má nefna hlut Þórs í að koma upp Sjóminjasafni Íslands í Hafnarfirði. Safnið markaði spor á sínum tíma þótt það starfaði í aðeins 15 ár.

Nánar er fjallað um þremenningana í meðfylgjandi greinargerð.

Helgi Máni Sigurðsson formaður SÍS

Geir Hólm
húsasmíðameistari og safnvörður

Geir Hólm fæddist þann 9. janúar 1933 á Eskifirði. Foreldrar hans voru Kristín U. Símonardóttir húsfreyja og Einar Hólm vélsmiður. Geir fór þriggja ára gamall í fóstur til Helgu Stefánsdóttur á Högnastöðum við Reyðarfjörð.

Geir lærði húsasmíðar í Keflavík og lauk þar sveinsprófi árið 1960. Að því loknu fluttist hann til Eskifjarðar og hóf að stunda iðn sína. Hann starfaði bæði við húsbyggingar og rekstur á trésmíðaverkstæði.

Árið 1982 gerðist hann safnstjóri Sjóminjasafns Austurlands. Við það starfaði hann til ársins 2008 eða þar til hann varð 75 ára gamall. Geir var ötull við að safna munum til safnsins og fór víða um við söfnun þeirra. Einnig lagði hann sitt af mörkum til varðveislu gamalla báta fyrir safnið, en bátarnir hefðu annars farið á eldinn.

Hann var einn aðalhvatamaður að uppbyggingu gamla vitans á Dalatanga og lagði mikla vinnu í það verkefni. Einnig stóð hann að viðgerð á Jensenshúsinu á Eskifirði. Það hús var byggt úr timbri 1837 og er elsta uppistandandi íbúðarhús á Eskifirði. Þá endurbyggði hann Randulfssjóhús á Eskifirði á árunum 1985-1987. Hann kom einnig að fyrstu aðgerðum við verndun gamla steinhússins á Sómastöðum, sem byggt var árið 1875.

Eftir Geir eru til margar teiknaðar myndir sem og málverk. Hann smíðaði allmörg líkön af húsum, bátum og veiðarfærum. Þar má meðal annars nefna líkan af v.b. Laxinum SU 384 er byggður var 1905, Birki SU 519, Jóni Kjartanssyni SU 111, hvalstöðinni í Hellisfirði, landnót og botnnót til síldveiða og ekki má gleyma líkani sem hann smíðaði af byggðinni á Eskifirði eins og hún leit út árið 1923. Þá smíðaði Geir 3 tonna trillubát úr tré, fyrir sjálfan sig til eigin nota og nefndi hann Kóp SU 460.

Geir er kvæntur Perlu Hjartardóttur frá Hvammstanga. Þau hjón eignuðust fjórar dætur. Perla átti drjúgan þátt í að aðstoða Geir við öll störf hans og ekki síst störfin við Sjóminjasafn Austurlands.

Pétur Sörensson

Hafliði Már Aðalsteinsson
húsasmiður og skipasmíðameistari

Hafliði fæddist 24. mars 1949 í Hvallátrum á Breiðafirði. Hann lærði hjá föður sínum Aðalsteini Eyjólfi Aðalsteinssyni sem rak skipasmíðastöð í Hvallátrum. Síðan stundaði hann nám við Iðnskólann í Reykjavík, tók sveinspróf í skipa- og bátasmíði 1970 og í húsasmíði 1989. Hann hefur meistarabréf í skipasmíði.

Hafliði hefur unnið að iðnum sínum og rak einnig verktakafyrirtæki með mági sínum í Búðardal um tíma. Hann rak skipasmíðastöð í Kópavogi í kringum 1980 og smíðaði þar nokkra báta.

Hafliði er stofnfélagi í Félagi áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum árið 2006, varformaður frá upphafi og tók við sem formaður árið 2009 og hefur verið það síðan. Félagið byggir á gjöf föður hans, sem gaf öll sín tæki og þrjá báta til stofnunar félagsins. Hafliði var stofnfélagi í Báta- og hlunnindasýningunni ehf á Reykhólum árið 2012 og hefur verið formaður félagsins frá upphafi. Sjá www.batasmidi.is

Hafliði hefur verið óþreytandi í að efla þekkingu á skipasmíðum og hefur haldið fjölda námskeiða, í skipasmíði, í samvinnu við IÐUNA fræðslusetur, m.a. í Reykjavík og á Reykhólum, Siglufirði, Akureyri o.v. Einnig hefur hann unnið að endurgerð ýmissa báta undanfarin ár.

Hafliði er kvæntur Jófríði Benediktsdóttur, kjóla- og klæðskerameistara og eiga þau tvær dætur. Þau hjónin voru útnefnd heiðursiðnaðarmenn Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík árið 2020.

Sigurður Bergsveinsson

Þór Magnússon
fyrrverandi þjóðminjavörður

Þór fæddist 18. nóvember 1937. Hann lauk prófi í fornleifa- og þjóðháttafræði við Uppsalaháskóla 1963 og tók til starfa hjá Þjóðminjasafni Íslands 1964 sem fastur starfsmaður. Hann var þjóðminjavörður 1968-2000.

Þegar Þór Magnússon kom til starfa á Þjóðminjasafninu voru þrír gagnmerkir bátar í eigu safnsins, sem bjargað hafði verið frá eyðingu. Það voru hákarlaskipið Ófeigur í Ófeigsfirði, Farsæll á Eyrarbakka og Engeyjarskip. Af ýmsum ástæðum hafði ekki verið mikið sinnt um þessa báta, þótt úr því væri bætt síðar með myndarlegum hætti. Meiri áhugi var þá á sveitamenningu fyrri tíðar en á minjum um sjósókn, fiskveiðar og atvinnuhætti. Gripir frá tækniöld voru einnig mjög hafðir út undan. Kannski var „nýi tíminn“ of nálægur til að safnmenn almennt væru farnir að veita honum athygli. Þór hefur sjálfur sagt svo frá að honum hafi runnið þetta nokkuð til rifja.

Þannig stóð enn um sinn eða uns Þór tók við stöðu þjóðminjavarðar árið 1968. Hafði hann þá aðstöðu til að bæta úr því, eftir því sem hægt var, bæði hvað snerti sjóminjar, samtíðarminjar og samgöngutæki. Hófst hann fljótlega handa við að hrinda þessari stefnubreytingu í framkvæmd en við margs konar byrjunarerfiðleika var að etja, bæði skortur á fjármagni og almennt skilningsleysi. Þór náði samt að komast yfir ýmsa merka báta, t.d. landhelgisbátinn Ingjald, og einnig margs kyns tækniminjar, þar á meðal fjöldann allan af bátavélum og fleiri áhugaverðar sjóminjar. Pétur Jónsson vélfræðingur var ráðinn til þess að hafa umsjón með söfnun og varðveislu tækniminja.

Í tíð Þórs Magnússonar sem þjóðminjavarðar hófst markviss söfnun á gömlum bátum en þá voru önnur söfn á landinu ekki farin að sinna þessum málaflokki svo heitið gæti. Skógasafni hafði að vísu áskotnast árskipið Pétursey 1952 og í safninu á Ísafirði var frá árinu 1941 sexæringurinn Ölver, sem að vísu var nýsmíði.

Þór lagði einkum áherslu á eldri opna báta og leitaði fanga víða um land. Þjóðminjasafnið eignaðist þá líka fáeina þilfarsbáta, ekki mjög stóra að vísu. Sá stærsti er plankabyggður (sléttsúðaður) og um 11,5 metrar að lengd. Þór lét ekki þar við sitja heldur reyndi líka að koma bátum inn á byggðasöfnin, þótt flest ættu við mikinn geymsluvanda að stríða. Hann studdi einnig við bakið á þessum söfnum með ráðum og dáð. Þór er tvímælalaust einn helsti frumkvöðull í varðveislu báta og sjóminja hér á landi.

Hér eru ekki tök á að gera grein fyrir öllum þeim bátum sem Þjóðminjasafninu bárust í tíð Þórs Magnússonar. Árabátar eru í miklum meirihluta og einnig má nefna opna vélbáta. Allir bátarnir eru úr tré og voru notaðir sem atvinnutæki á sínum tíma, aðallega við fiskveiðar en einnig til nytja á ýmsum hlunnindum og til samgangna. Nær allir eru þeir smíðaðir á Íslandi og eru til vitnis um skipasmíðaarf þjóðarinnar og gamalt handverk, sem nú er því miður nánast í útrýmingarhættu.

Þá er ótalinn hlutur Þórs í tilraun til að koma upp sjóminjasafni í Hafnarfirði ásamt sjóminjasafnsnefnd ríkisins. Stofnun sjóminjasafns hafði lengi verið í umræðunni þegar hentugt húsnæði bauðst undir slíkt safn. Um var að ræða gamalt og virðulegt timburhús, s.k. Brydepakkhús, sem óhætt er að fullyrða að Þór hafi fyrir hönd Þjóðminjasafnsins bjargað frá eyðileggingu. Aflaði hann fjár til að kosta viðgerð þess en Hafnarfjarðarhöfn studdi einnig við hana með myndarlegum hætti. Þáttur Þórs í stofnun sjóminjasafnsins var mjög afgerandi og markaði safnið spor á sínum tíma þótt það starfaði aðeins í um 15 ár.

Hér er margs ógetið sem er til vitnis um einlægan áhuga Þórs á varðveislu sjóminja og svo mikið er víst að enn þann dag í dag er honum þessi minjaflokkur afar hugleikinn þótt að hann hafi komið víða við.

Ágúst Ó. Georgsson