Ár eftir ár berast Matvælastofnun váboð tilkynningar (e. Rapid alert notifications) frá ýmsum erlendum viðvörunarkerfum. Hérlendis berast váboð tilkynningar varðandi fæðubótarefni í gegnum viðvörunarkerfi Lyfjastofnunar þrátt fyrir að það kerfi sé gert til að vakta váboð vegna lyfja. Í yfirferð Lyfjastofnunar kemur oft í ljós að um fæðubótarefni sé að ræða en ekki lyf. Oftast er um að ræða falin lyfjavirkt efni í vörum sem seljast sem fæðubótarefni. Þar sem þessum lyfjavirku efnum er ekki getið í innihaldslýsingu fæðubótarefnanna er neytandinn í hættu og því ber að varast þau.
Það sem af er ári hefur Matvælastofnun fengið 8 váboð í gegnum viðvörunarkerfi Lyfjastofnunar en þau sýna aðeins lítinn brot af tilkynntum vörum (sjá undir ítarefni). Vörurnar sem oftast koma við sögu eru markaðssettar sem kynörvandi fæðubótarefni eða sem lausn eða hjálp við ristruflunum (e. dietary supplements for male sexual enhancement) og fæðubótarefni fyrir þyngdartap (e. Dietary supplement for weight loss). Vörur eins og þessar eru yfirleitt einungis hægt að fá í netverslun eða á samfélagsmiðlum og oftast eru þær auglýstar sem náttúrulegar jurtavörur með „stórum loforðum“ um lausn á viðkomandi vandamáil. Efnagreining leiðir oft í ljós að virk lyfjaefni eru falin í fæðubótarefnum, þ.e. þeirra er ekki getið í innihaldslýsingu. Þegar upp kemst um svikin er varað við ólöglegri og hættulegri vöru t.d. í gegnum viðvörunarkerfi í hverju landi.
Oftast er um að ræða efnin tadalafil og sildenafil þegar vara er markaðssett sem kynörvandi fæðubótarefni eða sem lausn eða hjálp við ristruflun (e. dietary supplements for male sexual enhancement) en síbútramín, þegar vara er markaðssett sem hjálp við að léttast.
Tadalafil og sildenafil eru virk lyfjaefni í lyfseðilsskyldum lyfjum og eru ætluð til meðferðar við ristruflunum hjá fullorðnum karlmönnum. Lyfjaefni sem þessi ætti aldrei að nota nema í samráði við lækni þar sem þau geta verið skaðleg heilsu séu þau ekki notuð á réttan hátt. Síbútramín var virkt lyfjaefni í Reductil og öðrum lyfjum en efnið var afturkallað af markaði í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar árið 2010 vegna alvarlegra aukaverkana, sem einkum tengdust hjarta- og æðakerfi. Síbútramín átti ekki að vera á markaði.
Vörur eða fæðubótarefni sem innihalda falin lyfjaefni teljast ekki bara ólögleg matvæli heldur geta þau verið hættuleg þeim sem neyta þeirra og eru ekki meðvitaður um efnin í matvælunum. Markaðssetning og innflutningur slíkra efna er með öllu óleyfilegur og þau ber að varast. Matvælastofnun hvetur neytendur til þess að vera á varðbergi gagnvart slíkum vörum, sem seldar eru á netinu eða á samfélagsmiðlum. Neytendum ættu að sýna aðgát áður en þeir kaupa vörur á netinu og vera ávallt vakandi fyrir því hvernig markaðssetningu er háttað. Athuga þarf hvort netverslun sé treystandi og vera gagnrýnin á vefverslun ef t.d. loforð um kraftaverksárangur er of góður til að vera sannur eða ef aðeins er hægt að kaupa vöru í tiltekinni netverslun eða í takmarkaðan tíma.
Váboð tilkynningar til Matvælastofnunar frá janúar til mars 2022:
Mynd/pixabay