Ísland kallar eftir tímabundnu afnámi vegabréfsáritunarfrelsis Venesúela inn á Schengen-svæðið.

Dómsmálaráðherra hefur á undanförnum misserum lagt áherslu á það á vettvangi Evrópusambandsins að efla verði eftirlit og viðurlög vegna misnotkunar á áritanafrelsi þriðju ríkja. Ísland hefur nú lagt fram beiðni til Evrópusambandsins um að tekið verði til skoðunar að fella tímabundið úr gildi undanþágu Venesúela frá áritunarskyldu til að ferðast inn á Schengen-svæðið. Ástæðan er annars vegar misnotkun ríkisborgara Venesúela á áritanafrelsinu í ljósi mikils fjölda umsókna um vernd á Íslandi og annars staðar í Evrópu og hins vegar skortur á samvinnu þarlendra stjórnvalda við endurviðtöku eigin ríkisborgara í kjölfar synjunar á vernd.

Með aðild að Schengen-samstarfinu hefur Ísland skuldbundið sig til að fylgja stefnu Evrópusambandsins í vegabréfsáritanamálum og því bundið til að innleiða lista sambandsins sem kveður á um þau ríki sem njóta áritanafrelsis inn á Schengen-svæðið.

Mikill fjöldi umsókna frá Venesúela

Fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur aukist verulega á undanförnum árum, en í fyrra var heildarfjöldi umsókna 4.518, þar af 1.592 frá Venesúela, eða 62% allra umsókna. Þetta gerir Venesúela að stærsta upprunalandi umsækjenda um vernd á Íslandi undanfarin ár. Staðan er sambærileg í öðrum Schengen-ríkjum en þar hefur Venesúela átt fjölmennasta hóp umsækjenda um alþjóðlega vernd sl. 5 ár og samkvæmt nýjustu tölum frá Evrópsku hælisskrifstofunni (EUAA) hafa aldrei fleiri ríkisborgarar Venesúela sótt um vernd í Evrópu en í október síðastliðnum. Þrátt fyrir það hefur synjunarhlutfall alþjóðlegrar verndar til ríkisborgara Venesúela verið mjög hátt og er nú um 98% innan Evrópu.

Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr fjölda umsókna, þar á meðal aukinnar skilvirkni í afgreiðslu mála og samvinnu við alþjóðastofnanir þegar kemur aðsjálfviljugri heimför og framkvæmd brottvísana. Skortur á samvinnu frá yfirvöldum í Venesúela hefur hins vegar gert íslenskum stjórnvöldum  það erfitt að koma ríkisborgurum þeirra aftur til síns heima. 

Skortur á samstarfsvilja

Erfitt hefur reynst íslenskum stjórnvöldum að flytja ríkisborgara Venesúela til síns heima, einkum þar sem yfirvöld í Venesúela hafa sýnt lítinn vilja til samstarfs og beinlínis neitað að taka við eigin ríkisborgurum. Þessi skortur á samvinnu hefur leitt til verulegra tafa á bæði sjálfviljugri heimför og framkvæmd brottvísana, flækt allt skipulag og aukið kostnað fyrir íslenska verndarkerfið. Að auki hefur það hindrað Ísland í að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt Brottvísunartilskipun ESB, sem kveður á um skilvirka brottvísun einstaklinga út af Schengen-svæðinu sem fengið hafa synjun á vernd og dvelja því ólöglega innan þess.

Ríkisborgarar Venesúela hafa látið sig hverfa á meðan þeir eru í millilendingum innan Schengen-svæðisins á leið til síns heima sem hefur valdið togstreitu á milli Íslands og annarra Schengen-ríkja

Íslensk stjórnvöld hafa því kallað eftir því að Evrópusambandið beiti úrræðum á borð við tímabundið afnám áritanafrelsis til að stemma stigu við framangreindri misnotkun og til að knýja á um aukinn samstarfsvilja yfirvalda í Venesúela.

„Vegabréfsáritunarfrelsi ætti að vera forréttindi sem styrkir samskipti við þriðju ríki, en ekki leið til að veikja öryggi Schengen-svæðisins,“ segir í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda.

Mynd/aðsend