Á 736. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram bréf Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra dags. 21. mars 2022 er varðar fyrirhugaða endurskipulagningu sýslumannsembætta.

Í bréfinu eru reifuð sjónarmið ráðherra er snúa að fyrrgreindri endurskipulagningu og þær miklu breytingar og tækifæri sem miklar framfarir í stafrænni þjónustu hafa í för með sér. Einnig er í bréfinu skýrt tekið fram að markmið þeirra aðgerða sem boðaðar eru sé ekki að færa núverandi starfsemi undir eitt þak á höfuðborgarsvæðinu, markmiðið sé þvert á móti að efla núverandi starfsemi og styrkja starfstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt.

Bæjarráð þakkaði greinargott bréf ráðherra og fagnar þeim áherslum sem fram koma í bréfinu og varða þau fjölmörgu tækifæri sem felast í stafrænni þróun og miklum framförum í tækni sem auðveldar staðsetningu starfa óháð staðsetningu höfuðstöðva stofnunar eða ráðuneytis.

Bæjarráð hvetur ráðherra eindregið til að halda áfram á þeirri braut að nýta þau tækifæri bæði til að bæta þjónustu við almenning og eflingar starfstöðva á landsbyggðinni, og þar með skjóta styrkari stoðum undir blómlega byggð í landinu öllu. Að því sögðu vill bæjarráð koma á framfæri efasemdum um fækkun sýslumannsembætta úr níu í eitt og beina því til ráðherra að skoða hvort ekki væri ráð að hafa að lágmarki eitt embætti í hverjum landsfjórðungi.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma bókun bæjarráðs á framfæri við ráðherra.