Þann 21. október sl. voru haldnir minningartónleikar í Félagsheimli Hvammstanga um Skúla heitinn Einarsson á Tannstaðabakka.

Tæplega 230 manns mættu á tónleikana og inn í þeirri tölu voru 45 manns sem komu að verkefninu með einum eða öðrum hætti; söngfólk, hljóðfæraleikarar, miðasölu- og veitingastarfsmenn, tæknimenn og kynnar. Guðmundur Grétar Magnússon og Marinó Björnsson höfðu veg og vanda að tónleikunum í samráði við Ólöfu Ólafsdóttur ekkju Skúla og börn þeirra.

Eitt af markmiðum undirbúningsaðila var að allur afrakstur tónleikanna skyldi renna til Velferðarsjóðs Húnaþings vestra en Ólöf og Skúli heitinn styrktu sjóðinn rausnarlega þegar hann var stofnsettur og Ólöf raunar árlega allar götur síðan. Þegar dregið hafði verið á allar styrktarlínur, vilyrði og miðasala gerð upp og allur útlagður kostnaður greiddur stóðu eftir samtals kr. 849.125. Hefur sú upphæð verið greidd inn í Velferðarsjóð Húnaþings vestra.

Fjölmörg fyrirtæki í Húnaþingi vestra styrktu tónleikana með fjárframlögum auk hinna áðurnefndu upptöldu einstaklinga og hópa sem að verkefninu komu. Fyrir fjárframlögin, uppbyggilega starfið, jákvæða andann og framtakið sjálft ber að þakka af heilum hug og hjarta. Þarna var minning Skúla heiðruð með fallegum og eftirminnilegum hætti og afrakstur tónleikanna rann í þarft og mikilvægt málefni.