Það getur þú gert með því að taka þátt í íbúakönnun landshlutanna sem er nú í gangi um allt land. Þetta er sagt vegna þess að hún hefur hingað til nýst okkur hjá landshlutasamtökunum í að meta og hafa yfirlit yfir raunverulega stöðu okkar á landsbyggðinni. Það hefur mótað áherslur í starfi okkar og breytt forgangsröð þess. Einnig hefur hún nýst inn í hverskonar stefnumótun sem landshlutasamtökin hafa þurft að fara í og leggur því línurnar inn í framtíðina sem er mikilvægt í málum sem vinna þarf stöðugt að yfir langan tíma. Og að síðustu hafa upplýsingarnar nýst okkur í hagsmunabaráttu fyrir landshlutana. Fólk tekur mark á upplýsingum sem koma frá miklum fjölda fólks þar sem söfnun og úrvinnsla er faglega unnin. Þegar fólk sest niður með gögn sem þessi er hlustað.

Íbúakönnun landshlutanna er í gangi þessar vikurnar og verður hægt að svara henni út október. Í könnuninni er spurt hvort fólk sé ánægt með aðbúnað þar sem það býr þjónustu og ýmislegt annað sem skiptir máli fyrir velferð íbúanna. Einnig hvort það hyggist búa áfram þar sem það býr, hvar það sæki vinnu og við hvaða starfsgrein og ýmislegt er varðar vinnumarkaðinn. Könnunin veitir sveitarstjórnarmönnum mikilvægar vísbendingar um forgangsröð í verkefnum sveitarfélagsins og öðrum opinberum aðilum hvar tíma og fjármunum er best varið. Þess vegna er óhætt að segja þetta kjörið tækifæri fyrir íbúa til að gera gott samfélag enn betra.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) framkvæmdu könnunina fyrst 2004 og síðan þriðja hvert ár. Stöðugt fleiri hafa sóst eftir að taka þátt en þetta er í fyrsta sinn sem könnunin nær til landsins alls.

Samtök sveitarfélaga hafa líka framkvæmt könnun meðal fyrirtækja ár hvert síðan 2013. Sú könnun nær núna líka til alls landsins og gefur mjög mikilvægar upplýsingar á sama hátt og íbúakönnunin, um stöðu landshlutanna og þróun frá sjónarhóli allra íbúa, fyrirtækja og vinnandi stétta. Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV leiðir þessa vinnu í samráði við landshlutasamtökin og hefur komið nálægt framkvæmd þeirra frá upphafi. Stefnt er að því að báðar þessar kannanir verði framkvæmdar reglulega.

Hér er hægt að svara könnuninni