Þessa dagana vinna Strákar og stundum Smástrákar við að byggja klifurturn við Hlíðarrípil á Siglufirði. Hlíðarrípill er einn af snjóflóða varnargörðunum fyrir ofan bæinn. Stefnt er að því að turninn verði tilbúinn í lok júní, en oft væri hægt að nýta fleiri hendur við verkið.
Trölli.is bætti við ramma í feril vefmyndavélar á Siglufirði sem sýnir klifurturninn. Forsíðumyndin er skjáskot af þeim ramma, tekið 11. júní.
Á fundi sínum þann 3. apríl 2019 bókaði Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar meðal annars:
3. 1903068 – Umsókn um leyfi fyrir klifurturni
Lögð fram umsókn dagsett 21. mars 2019 þar sem Magnús Magnússon f.h. björgunarsveitarinnar Stráka óskar eftir leyfi til að reisa klifurturn ofan við Hlíðarrípil á Siglufirði í samræmi við meðfylgjandi teikningar.
Erindi samþykkt en staðsetning skal vera í samráði við tæknideild. Nefndin bendir einnig á að ekki verður hægt að nýta turninn yfir vetrarmánuðina þar sem um snjóflóðahættusvæði er að ræða.