Þjóðhátíðardagur Íslendinga er haldinn hátíðlegur í dag um allt land nú þegar lýðveldið Ísland fagnar 75 ára afmæli.

Lýðveldishátíðin var haldin á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Klukkan 13:30 setti forsætisráðherra, dr. jur. Björn Þórðarson, hátíðina með ávarpi. Eftir það var haldin guðsþjónusta. Kl. 13:55 var fundur sameinaðs Alþingis settur og þingsályktun Alþingis frá 16. júní tekin til dagskrár. Að því loknu hringdi forseti sameinaðs þings bjöllu og var klukkan þá nákvæmlega 14.00.

Lýðveldisfáninn var síðan dreginn að hún og þingmenn risu úr sætum um leið og kirkjuklukkum var hringt yfir mannfjöldann og um allt land í 2 mínútur frá Útvarpsstöðinni í Reykjavík.

Eftir ávarp forseta sameinaðs þings, samþykkti Alþingi einróma að frá og með þeim degi skyldi Ísland vera lýðveldi. Að því búnu kaus Alþingi fyrsta forseta lýðveldisins, Svein Björnsson, en hann er eini forseti Íslands, sem aldrei var til þess embættis kjörinn af þjóðinni.

 

Forsíðumynd: Sóley Lilja Magnúsdóttir nýstúdent frá MTR