Nemendur í áföngunum Inngangur að listum og Listræn sköpun í MTR fengu skemmtilegt tækifæri til að kynnast gerð smárita hjá gestakennurum í dag. Þeir dvelja í Listhúsinu í Ólafsfirði og eru meðal annars að undirbúa vetrarhátíðina Skammdegi.

Smárit er þýðing á „zines“ sem er alþjóðlegt heiti ritverka sem gefin eru út í litlu upplagi, venjulega af einstaklingi eða litlum hópi. Oft eru þetta ljósrit en dæmi eru um smárit í öðru formi til dæmis útsaumuð. Upplagið er ekki yfir eitt þúsund og stundum innan við eitt hundrað. Fyrst fluttu Sheryl Anaya og Dannie Liebergot stutta kynningu á fyrirbærinu en síðan tóku nemendur og gestir þátt í verklegri æfingu í gerð smárita.

Afrakstur vinnunnar í gær verður sýndur í Listhúsinu á laugardaginn kemur og verður sýningin opnuð klukkan átján. Þá er fyrirhugað að nemendur í Listrænni sköpun haldi áfram að vinna með smárit og færi sig yfir í bókverk í næstu viku. Skoða Myndir