Í síðustu viku lauk fundi sérfræðinga þar sem teknar voru saman niðurstöður alþjóðlegs leiðangurs í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum sem farinn var í maí síðastliðnum. Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og annarra uppsjávartegunda. Því til viðbótar er ástand hafsins og vistkerfisins kannað, m.a. hitastig og magn átustofna. Leiðangurinn var skipulagður af vinnuhóp á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) en auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, tóku rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Rússlandi þátt í verkefninu. Vegna tafa á þátttöku Rússa, sem höfðu það verkefni að skoða ungsíld í Barentshafi, munu niðurstöður þess hluta verða bætt inn í skýrsluna í ágúst.
Útbreiðsla norsk-íslenskrar síldar var svipuð og undanfarin ár. Um 2/3 hluta lífmassans var að finna suðvestantil í Noregshafi (Austurdjúpi) en þriðjungur austar og norðar (mynd 1). Stærsta og elsta síldin hafði að öllu jöfnu gengið lengst í vestur en yngri síld var að finna austar og norðar. Heildar bergmálsvísitala fullorðinnar síldar var 4,9 milljón tonn sem er um 3% lækkun frá árinu 2018.
Vísitölur síðustu ára hafa sveiflast lítillega en heilt yfir sýna þær nokkuð stöðuga stofnstærð (mynd 2). Árgangurinn frá 2013 (6 ára) var í mestum fjölda og lífmassa (24%). Vonir hafa verið bundnar við að 2016 árgangurinn (3 ára) kunni að vera stór. Umtalsvert fannst af þeim árgangi en óvíst hvort að hann sé að fullu genginn úr Barentshafi. Það er því ennþá mikil óvissa með stærð hans en fjöldavísitala árgangsins nú við þriggja ára aldur er svipuð og stóra árgangsins frá 2004 en lægri en 2013 árgangsins (mynd 3). Miðað við dreifingu stofnsins má ætla að eldri hlutinn muni halda sig austur og norður af Íslandi í sumar líkt og undanfarin ár.
Kolmunna var að finna utan landgrunns á mest öllu athugunarsvæðinu ef undan er skilið svæði þar sem kaldan Austur-Íslands strauminn austur af Íslandi er að finna. Mesti þéttleikinn var á suðurhluta athugunarsvæðisins svo og með landgrunnsbrún Noregs. Þessi leiðangur nær þó ekki yfir allan kolmunnastofninn og þá síst veiðistofninn. Niðurstöðurnar gefa þó vísbendingar um stærð yngri árganga. Heildarvísitalan fyrir lífmassa kolmunna hækkaði um 41% frá því í fyrra og munaði þar mestu um árganginn frá 2018. Hann fannst að mestu leyti austan til í hafinu. Vísitala hans er af sömu stærðagráðu og vísitölur árganganna frá 2013-2015 á sama aldri, en þeir hafa reynst vera stórir. Mælingar nú, líkt og undanfarin ár, benda til að árgangar 2016 og 2017 séu litlir.
Lítilsháttar hækkun var milli ára á vísitölum um magn átu fyrir allt rannsóknarsvæðið að undanskyldu svæðinu austur af Íslandi þar sem var lítilháttar lækkun (mynd 4). Um miðbik og austurhluta svæðisins eru vísitölurnar nálægt meðaltali áranna 1995-2018. Á vesturhluta svæðisins, þar sem jafnan voru hæstu gildin árin 1995-2007, eru vísitölurnar ennþá lágar í sögulegu samhengi.
Hitastig sjávar var yfir meðaltali síðustu 23 ára á 50-200 m dýpi á vestari hluta hafsvæðisins en undir meðaltali í hlýrri sjónum austar og sunnar (mynd 5).
Þessar niðurstöður, og þá einkum síldarmælinganna, verða meðal annars notaðar á fundi ICES í lok ágúst næst komandi þar sem vinna við stofnstærðarmat og ráðgjöf þessara uppsjávarfiskistofna fer fram. Meira um niðurstöður frá leiðangrinum er að finna í þessari bráðabirgðaskýrslu. Þá mun skýrsla um íslenska hlutann verða birt innan skamms á vef Hafrannsóknastofnunnar.
Heimild og myndir: Hafrannsóknarstofnun