Framfarafélag Ólafsfjarðar hefur um skeið unnið að því að raungera fiskeldi í Ólafsfirði, sem bæði geti skapað verðmæta framleiðslu, ásamt beinum og afleiddum störfum í sveitarfélaginu.
Félagið hefur fest kaup á eina stofni styrju sem til er á Íslandi og er í dag að verða níu ára gamall. Er hér um að ræða 165 fiska sem vonandi komast til Ólafsfjarðar áður en langt um líður. Er hér um stofnfisk framtíðar uppbyggingar eldisins að ræða.
Hér er um land eldi að ræða, sem í þessu tilfelli fer fram innandyra og mun það fara fram í húsakynnum þeim er félagið er að festa kaup á við Pálsbergsgötu 1 í Ólafsfirði.
Á Mbl.is segir að styrjur hafi dafnað vel í eldi í stöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi síðustu ár. Þar voru um um 200 styrjur árið 2018 og þær stærstu voru þá orðnar yfir 30 kíló að þyngd.
Eldi styrju er þolinmæðisverk því sex til átta ár tekur að ala seiði fram til kynþroska. Eftir nokkru er hins vegar að slægjast því mikil verðmæti eru fólgin í hrognum styrjunnar eða kavíarnum.
Lagt er fram á 718. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar erindi Hins Norðlenzka Styrjufjelags ehf. dags. 6. nóvember 2021, í erindinu eru áform félagsins um styrjueldi reifuð og sett fram ósk um leyfi sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar starfssemi.
Erindi svarað.
Bæjarráð þakkar erindið og fagnar þeim áformum sem lýst er í bréfinu enda stuðla þau að aukinni atvinnuuppbyggingu í Fjallabyggð. Að því sögðu þá bendir bæjarráð á að í reglugerð nr. 1133/2021 um skráningarskylda aðila í fiskeldi kemur það m.a. fram í 3.gr. að Matvælastofnun annist skráningu skráningarskyldra aðila sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar.
Í því ljósi beinir Fjallabyggð því til bréfritara að snúa sér til Matvælastofnunar vegna málsins.
Forsíðumynd/Magnús G. Ólafsson