Þar var haustið 1923 að nokkrir Siglfirðingar komu saman og æfðu söng. Það var svo á öðrum degi jóla það sama ár að þessi hópur söng fyrst opinberlega uppi á svölum húss Helga Hafliðasonar að Aðalgötu 6, þar sem nú er Kiwanissalurinn. Á götunni fyrir neðan svalirnar hafði safnast saman mikill mannfjöldi sem fagnaði mjög og gerði góðan róm af söngnum. Það var svo þann 22. janúar 1924 að Karlakórinn Vísir var formlega stofnaður. Meðlimir kórsins voru þá um 20 talsins.
Halldór Hávarðarson frá Bolungarvík hvatti mjög til stofnunar kórsins og hann var jafnframt fyrsti stjórnandi hans. Halldórs naut þó ekki lengi við, því hann lést þá um vorið, eða aðeins fáeinum mánuðum síðar. Tryggvi Kristinsson organisti við Siglufjarðarkirkju tók þá við stjórn kórsins og gegndi því starfi með ágætum til ársins 1929. Þormóður Eyjólfsson kaupmaður og síðar ræðismaður tók við af Tryggva, en hann sinnti söngstjórninni allt til 1952 eða í heil 23 ár. Segja má að undir hans stjórn hafi Vísir átt sitt fyrra glæsilega tímabil. Haukur Guðlaugsson tók við stjórn Vísis af Þormóði og þá fjölgaði talsvert í kórnum, mikil tónlistarvakning varð í bænum og stofnaður var tónlistarskóli Vísis þar sem Haukur var skólastjóri. Hann fór síðan erlendis til frekara tónlistarnáms 1956 og fyrst á eftir var ekki mikil starfsemi hjá kórnum, en Sigursveinn D. Kristinsson og Róbert A. Ottósson hlupu undir bagga þegar mikið lá við þar til Páll Erlendsson tók við keflinu.
Það varð mikil breyting á kórstarfinu þegar Þjóðverji að nafni Gerhard Schmidt var ráðinn stjórnandi, því segja má að þá hafi Vísir átt sitt síðara tímabil sem var jafnvel enn glæsilegra en hið fyrra, því Gerhard hafði einkar gott lag á að virkja rétta fólkið til góðra verka. Kórinn var nútímavæddur svo um munaði, lagavalið breyttist mikið og léttist, kabarettar og söngskemmtanir voru settar upp með aðkomu lúðrasveitarinnar, kvennakórsins, hljómsveitarinnar Gauta, leikfélagsins og einnig voru fengnir hljóðfæraleikarar úr Symfóníuhljómsveit Íslands til aðstoðar þegar kórinn fór í sínar stóru tónleikaferðir um landið. En hann fór líka erlendis, til Herning í Danmörku þar sem hann hélt nokkra tónleika og söng í danska rískiútvarpið og skömmu síðar einnig til Cannes í Frakklandi þar sem hann tók á móti plötuverðlaunum.
Nokkrir karlakórsunnendur af gamla skólanum kölluðu Vísi poppkórinn og/eða bítlakórinn og átti það að vera í neikvæðri merkingu. En vopnin snérust í höndum þeirra aðila og varð kórnum sennilega miklu frekar til framdráttar. Gaman er að geta þess í leiðinni að kórinn söng á risastórri útihátíð í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1970. Þar kom hann fram með eðalpoppsveitunum Trúbrot, Náttúru, Ævintýri og Óðmönnum.
Eftir að Gerhard hætti störfum 1975 fór að fjara undan starfseminni. Ágætir menn björguðu málunum þegar mikið lá við og eiga þeir allir miklar þakkir skildar. Má þar nefna Guðjón Pálsson, Elías Þorvaldsson og Andrew Hurel. Karlakórinn Vísir á Siglufirði var einstakur kór. Hann naut fádæma vinsælda um land allt og var á sínum eitt helsta stolt Siglfirðinga, enda full ásæða til. Útgáfusaga kórsins er ennfremur nokkuð sérstök, og þá ekki síst fyrir lagavalið á plötum hans og sennilega hefur enginn íslenskur karlakór fengið jafnmikla spilun í óskalagaþáttum útvarps.
Síðasta stjórn kórsins var kosin árið 1980 og í henni sátu þeir Björn Jónasson, Guðlaugur Karlsson og Bjarni Þorgeirsson.
Meðfylgjandi myndband var gert 2024 af tilefni þess að öld er liðin síðan þessi merkilegi kór var stofnaður en upptökur fóru fram um miðjan tíunda áratuginn. Vísis-syrpu er að finna á geisladisknum eða USB lyklinum „Svona var á Sigló“ sem gefinn var út 2023.
Flytjendur eru:
Einsöngur: Þorvaldur Halldórsson.
Kór: Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Þorvaldur Halldórsson, Halldór Kristinsson, Arnar Freyr Gunnarsson, Guðmundur Hermannsson, Rafn Erlendsson, Magnús Guðbrandsson, Leó R. Ólason, Karl Guðlaugsson.
Gítar: Tryggvi Júlíus Hübner.
Bassi: Jóhann Ásmundsson.
Trommur: Ásgeir Óskarsson.
Trompet: Einar St. Jónsson.
Pianó: Leó R. Ólason.
Harmonikka: Árni Scheving.
Forsíðumynd/skjáskot úr myndbandi