Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta fréttir frá Hrísey
.

Tíminn líður hratt og er febrúar rúmlega hálfnaður þennan fína og kalda föstudag. 

Vetrarfrí er í Hríseyjarskóla og öllum skólum Akureyrarbæjar og því auknar líkur á að rekast á fjöruga krakka í útivistinni. Frábær nýting hefur verið á gönguskíðabrautunum um eyjuna og ótrúlegasta fólk farið að munda skíðin, aftur eða sem byrjendur. Í tilefni vetrarfrís þá býður Akureyrarbæ öllum grunn- og framhaldsskólanemendum frítt í sund og í Hlíðarfjall. Við hvetjum þau sem geta til þess að nýta sér það.

Þessi sjöunda vika ársins er vika átsins. Mánudagur var hinn sívinsæli bolludagur og er það víst að rjómabollu, kjötbollur og fiskibollur mátti finna á diskum eyjaskeggja. Sum höfðu tekið smá forskot á sæluna og hafið bollu-át á sunnudeginum og fengu því tvöfalda skammta! Sprengidagurinn kom í kjölfarið og örlítið bjúgaðir Hríseyingar fóru svo hress og kát inn í öskudag á miðvikudegi. Sjá mátti ýmsar fígúrur á ferð um þorpið þann daginn. Að venju hófst dagskráin á því að slá köttinn úr tunnunni. Elektra Sól Hermannsdóttir varð tunnudrottning eftir að krakkarnir höfðu átt í löngu stríði við sterka tunnuna. Svo var það hún Bryndís Petra Ingólfsdóttir sem sló sælgætið niður og hlotnaðist þar að leiðandi titillinn kattardrottning. Foreldrar fylgdust spennt með og rifjuðu upp þegar eitthvað allt annað en sælgætispoki leyndist í tunnunni. Voru það ögn subbulegri viðskipti en eru í dag. 

Krakkarnir gengu svo í fyrirtæki og hús, sungu og fengu alveg helling af sælgæti og aur fyrir. Dagskrá lauk svo í leik og dansi á skemmtilegu öskudagsballi í íþróttahúsinu. Hafa krakkarnir í Hrísey vanist því að skipta þá um búning, einn búning fyrir tunnuna og annan fyrir ballið. Þannig enn fleiri fígúrur voru á ferð að skemmta sér í limbó og hókípókí. Er öskudagur alltaf mjög skemmtilegur í eyjunni okkar og rétt að minna á að öll börn eru velkomin að taka þátt í honum með okkur. 

Hádegissúpan á miðvikudögum var á sínum stað á Verbúðinni 66. Hefur verið góð mæting í súpuna og er þetta frábær viðbót við matarmenninguna hjá okkur yfir vetrartímann. Við minnum á að Verbúðin 66 er með heimasíðuFacebook síðu og Instagram síðu. Opið er þar á laugardaginn og tilvalið að gera sér dagamun í vetrarfríinu.

Hríseyjarbúðin er svo einnig með Facebook síðu þar sem sett eru inn tilboð, hægt að sjá opnunartíma, allskyns tilkynningar og nýjungar sem þar er boðið upp á. Svo er þau líka dugleg að minna á föstudagspizzurnar á Instagram.

Veðrið núna í vetrarfríinu á að vera alveg ágætt. Fyrr í vikunni voru gylliboð um tveggja stafa hitatölur, en vetur konungur sagði nei takk og frysti þá draumóra fljótt. Við getum þó gert ráð fyrir rauðum tölum og hlýjast verður á sunnudaginn. Hita er spáð frá 2-7 gráðum yfir daginn, vindur um 6 m/s og skýjað að mestu. Ágætis veður fyrir göngutúra og að fylgjast með fuglunum. Ágætis magn af snjó er í eyjunni og um að gera að nýta hann í allskyns leiki og æfingar.

Nokkrar myndir af öskudegi fylgja hér fyrir neðan, en fleiri myndir má sjá á Facebook og Instagram.