28 verkefni hljóta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 fyrir alls 550 milljónir. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti um úthlutunina í Vík í Mýrdal.
Fjallabyggð hlaut tvo styrki, 10,2 m. kr í stikun og merkingar á gönguleið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og 2,8 m. kr. í gönguleið að Selvíkurvita og rústum Evangers – 1. Hluti.
Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.
„Verkefnin sem hljóta styrk í ár snúa að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt. Það er sérstaklega ánægjulegt að 20 af 28 verkefnum sem hljóta styrk eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis,“ segir ráðherra.
Hæsti styrkurinn að þessu sinni eru 158 m.kr. í verkefnið „Baugur Bjólfs“ á Seyðisfirði. Sex aðrir styrkir eru hver hærri en 20 m.kr.
„Baugur Bjólfs er hringlaga útsýnispallur sem situr á Bæjarbrún. Hér er einstakt útsýni yfir Seyðisfjörð — frá mynni fjarðarins, yfir bæinn, fjallahringinn og suðvestur inn í dalinn. Að ofanverðu gnæfa tindar Bjólfs yfir,“ segir í lýsingu verkefnisins.
101 umsókn í ár
Alls bárust að þessu sinni 101 umsókn um styrki, samtals að fjárhæð 2.037.984.107 kr., til verkefna að heildarfjárhæð 6.401.045.030 kr. Af innsendum umsóknum voru 24 ekki taldar uppfylla formkröfur sjóðsins eða falla utan verksviðs hans, skv. lögum nr. 75/2011.
Stjórn Framkvæmdasjóðsins lagði til að alls 28 verkefni yrðu styrkt að þessu sinni, samtals að fjárhæð 550.000.000 kr. Ráðherra féllst á tillögur stjórnar og hefur Ferðamálastofu verið falið að ganga til samninga við styrkþega .
Lista yfir verkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni má finna hér að neðan.
• 157,6 m. kr. Baugur Bjólfs útsýnispallur á Seyðisfirði
• 81,1 m. kr. Öryggi og náttúrvernd við Stuðlagil
• 72 m. kr. Útsýnispallur í hlíðum Reynisfjalls
• 27 m. kr. Hrísey – greið leið um fornar slóðir
• 24 m. kr. Uppbygging á Englandi í Borgarbyggð
• 21 m. kr. Yltjörn – Bætt aðgengi
• 20 m. kr. Seltún – áframhaldandi uppbygging
• 18,7 m. kr. Múlagljúfur – 2. áfangi. Framkvæmd og frekari hönnun áfangastaðar
• 15,5 m. kr. Innviðauppbygging, náttúruvernd og öryggismál í selafjörunni við Ytri-Tungu á Snæfellsnesi
• 13 m. kr. Staðarbjargavík – Hönnun útsýnispalla og stiga
• 12,3 m. kr. Umbætur í Ölfusdölum – Reykjadalur og nærliggjandi svæði
• 11,4 m. kr. Spákonufellshöfði – Fasi 2
• 10,5 m. kr. Hrunalaug uppbygging
• 10,2 m. kr Stikun og merkingar á gönguleið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar
• 8,3 m. kr. Uppbygging Hóla í Hjaltadal sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
• 6,8 m. kr. Grímsey – bætt upplifun og öryggi
• 6 m. kr. Gengið úr leirnum
• 5,9 m. kr. Glymur í botni Hvalfjarðar
• 5,8 m. kr. Hólmsá-Rauðibotn-Hólmsárlón, skipulag, hönnun og merkingar
• 4,7 m. kr. Valagil – göngustígur og áfangastaður
• 4,5 m. kr. Hönnun á aðgengi og sturtuaðstöðu á Langasandi.
• 3,3 m. kr. Stikun og merkingar gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls
• 3 m. kr. Göngustígar og aðgengi Listasafni Samúels í Selárdal
• 2,8 m. kr. Gönguleið að Selvíkurvita og rústum Evangers – 1. Hluti
• 2,5 m. kr. Bætt aðgengi að Sviðsetningu Haugsnesbardaga
• 600 þ. kr. Merking gönguleiðarinnar um Snæfjallahringinn
• 500 þ. kr. Áningarhólf við Skjöld í Stykkishólmi-Helgafellssveit
• 460 þ. kr. Gönguleið: Fellsströnd – Skarðsströnd
Verkefnin sem nú hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli.
„Frá árinu 2012 til 2022 hafa alls 849 verkefni hlotið styrk úr Framkvæmdasjóðnum og bætast því nú 28 verkefni við í þann hóp. Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum,“ sagði ráðherra meðal annars í kynningu sinni í dag.
Sem dæmi má nefna uppbyggingu við Goðafoss, á Bolafjalli og í Hveradölum en öll verkefnin hafa hlotið styrk úr sjóðnum síðustu ár.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða starfar samkvæmt lögum nr. 75/2011 og er markmið sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.