Í gær, þann 27. janúar, var ATIS (Automatic Terminal Information Service) eða flugvallarútvarp tekið í notkun á Akureyrarflugvelli (BIAR).

Markmiðið er að auka þjónustu og öryggi flugs um flugvöllinn.

ATIS kerfi eru nú þegar í notkun á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli.

Flugvélar sem eiga leið um Akureyrarflugvöll geta fengið upplýsingar um veður, ástand flugvallar og annað með því að hlusta á ATIS á tíðni 136.200 MHZ eða hringja í síma 424 4039 í stað þess að fá upplýsingarnar á tíðni turnsins.

„Þetta eykur enn frekar öryggi flugs á Akureyrarflugvelli,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Þessi breyting minnkar álagið á tíðni flugturns. Flugumferðarstjórar geta þá einbeitt sér enn frekar að annarri þjónustu eins og til dæmis því að beita aðskilnaði flugvéla þegar þær eru að koma inn á flugvöllinn eða taka á loft frá honum.“


Mynd: Isavia
Aðsent