Mikil umferð var um liðna helgi í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra, enda nokkrir fjölsóttir viðburðir í umdæminu, eins og stóðréttir í Víðidal og matarmarkaður á Hofsósi.
Þá hefur verið fallegt haustveður að undanförnu, milt og stillt, þannig að einhver hluti ökumanna hefur ekið of greitt.
Um helgina hafði lögregla afskipti af alls 144 ökumönnum sem kærðir voru fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var erlendur ferðamaður er lögregla stöðvaði í Blönduhlíð í Skagafirði á 166 km hraða á klukkustund. Sá var sviptur ökuréttinum á staðnum.
Þá reyndist einn ökumaður vera undir áhrifum áfengis. Að öðru leyti gekk umferð vel hér um helgina og aðeins eitt minniháttar umferðarslys var tilkynnt lögreglu.
Mynd: Lögreglan á Norðurlandi vestra