Í ár fagnar Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði margvíslegum afmælum og vörðum í sögu og vexti Síldarminjasafnsins. Það vill svo skemmtilega til að stórir og veigamiklir atburðir í sögu safnsins hafa átt sér stað svo að ýmist er heill eða hálfur tugur á milli og því sannarlega ástæða til upprifjunar og fögnuða.
29. júní voru liðin 20 ár frá vígslu Bátahússins. Þann dag voru mikil hátíðarhöld á Siglufirði og norski krónprinsinn Hákon Magnús vígði hið nýja safnhús. Það er því ekki úr vegi að rifja upp uppbyggingu hússins.
Fyrstu drög að Bátahúsinu voru lögð fram árið 2000 og ári síðar var farið að vinna að skipulagi uppbyggingarinnar.
Árið 2002 var skipið Týr SK flutt sjóleiðis frá Sauðárkróki til Siglufjarðar – síðasta spölinn keyrði Týr um þröngar götur bæjarins, að endastöðinni: inn í grunn væntanlegs húss. Við hlið Týs var komið fyrir Draupni EA 70. Húsgrunnurinn var enn ósteyptur – en sýningin hafði verið hönnuð og safngripunum komið fyrir á réttum stað. Sumarið 2003 voru undirstöður hússins steyptar og það gert fokhelt fyrir árslok. Húsið var byggt utan um bátana sem nú voru komnir í sína síðustu heimahöfn. Næsta hálfa árið var unnið sleitulaust að sýningunni í Bátahúsinu – bryggjur smíðaðar í kringum síldveiðiskipin og nótabátana og öll smáatriði sýningarhönnunarinnar færð í framkvæmd.
Afraksturinn er nýstárleg sýning; bátar liggja við bryggju, sjávarniður og mávagarg, tjörubornar bryggjur og í fjarska hljóma ljúfir tónar síldaráranna. Í Bátahúsinu eru bátarnir bundnir við bryggjur, búnir viðeigandi veiðarfærum. Neta- og beitningaskúrar standa til hliðar sem minnisvarðar um þá fjölbreyttu iðju sem fram fór á höfninni á árum áður. Í anddyri hússins er uppsett gömul veiðarfæraverslun með innréttingum og varningi úr Veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndal sem rekin var á Siglufirði um áratugaskeið.
Sama ár og vígsla Bátahússins fór fram hlaut Síldarminjasafnið Evrópuverðlaun safna sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu.
Myndir og heimild/Síldarminjasafnið