Óliver stóð við gluggann og gat sig hvergi hrært.  Það var eins og hver taug væri lömuð við þessa hrollvekjandi sýn. Fyrir utan stóð risastór köttur og yggldi sig ógnvekjandi að honum. Móðu lagði á glerið við hvern andadrátt.  Grimmdarlegur kjafturinn var grettur og ljótur.

Þetta virtist standa um eilífð. Óliver bara stóð þarna og horfði án þess að geta hrært legg né lið. Eftir stjarfa þögn um stund slaknaði á kjafti kattarins. Hann lokaði honum hikandi og dró sig eilítið frá glugganum, hallandi undir flatt eins og kettlingur sem vildi egna til leiks.  

„Ertu ekki hræddur?“ spurði hann svo eftir örlitla þögn. Augun voru kringlótt af undrun.

Auðvitað var Óliver hræddur; svo hræddur að hann sýndist ekki hræddur;  gat hvorki gefið frá sér hljóð né flúið. Smátt og smátt kom hann til sjálfs sín. Hann fann að hættan var kannski ekki eins mikil og sýndist í fyrstu og var reyndar steinhissa á þessari aulalegu spurningu kattarins. 

„Hver ert þú?“ spurði hann hikandi.

„Hver ert þú?“ át kötturinn upp eftir honum.  „Veistu ekki hver ég er?“

„Ég mundi halda að þú værir Jólakötturinn.“

Óliver var farinn að átta sig á hlutunum. Það var ekki um margt að ræða hérna. Hann vissi um allar vættir og skuggaverur sem fóru á kreik um Jólin. Hann hafði heyrt og lesið ótal sögur. Til dæmis var það sagan um Grýlu, mömmu Jólasveinanna. Hún leitaði uppi óþæg börn, setti í pokann sinn, sauð þau og át í helli sínum. Jólakötturinn át börn sem ekki fengu ný föt fyrir Jólin og þarna var hann mættur ljóslifandi.

„Uhumm“ jánkaði kötturinn. „Auðvitað er ég Jólakötturinn. Þú veist kannski líka hvers vegna ég er hér?“

„Eiginlega ekki.“ svaraði Óliver og var nú allur orðinn rólegri. „Við Lilja systir mín erum bæði búin að fá glæný Jólaföt svo þú ert ekki á réttum stað. Hér fæðu enga krakka að éta.“

 Jólakötturinn varð stúrinn í framan og líktist frekar skömmustulegum kettlingi en ógnvekjandi skrímsli.

„Og víst má ég éta þig. Þessir skór hérna eru að minnsta kosti fjögurra daga gamlir. Allavega ekki glænýir.“

„Vertu ekki að bulla svona.“ sagði Óliver og var nú alveg óhræddur. „Þú getur ekki snúið svona út úr og breytt reglunum eins og þér sýnist. Ég er orðinn níu ára og er enginn bjáni ef þú heldur það.“ 

Jólakötturinn dæsti vonleysislega og laut höfði. „Það er ekki sanngjarnt að ég fái ekkert að éta meðan allir geta borðað sig sadda af veislumat um Jólin. Ég hef ekki fengið sparifatalaus börn í yfir hundrað ár. Heldurðu að það sé eitthvað skemmtilegt?“

„Þú gætir kannski byrjað að borða eitthvað annað en börn. Það er nógur annar matur. Öllum venjulegum köttum þykir fiskur góður til dæmis.“

Kötturinn ók sér vandræðalega í skinninu. Hann var hugsi um stund og sagði svo ólundarlega: „Þið étið nú sjálf börn. Hvað heldurðu að Kjúklingar séu? Kálfakjöt, folaldakjöt, lambakjöt og egg. Þetta eru börn. “Óliver hafði ekki hugsað út í þetta fyrr. Kötturinn hafði alveg rétt fyrir sér.  Í sömu mund reis Lilja upp í rúminu sínu og spurði syfjulega. 

„Við hvern ertu að tala Óliver?“

Óliver hrökk við og starði á systur sína. Hann vildi ekki segja satt og hræða hana. Hann gat heldur ekki logið á Jólunum og gefið Grýlu ástæðu til að éta sig. Hugurinn hamaðist eins og fluga í krukku í leit að svari, en ekkert kom sem gat bæði verið satt og logið.

„Hérna…“ sagði hann hikandi. „ Ég er bara að tala við Jólaköttinn.“ Hann missti þetta hugsunarlaust út úr sér og greip fyrir munninn um leið. Þetta var ekki gott. Nú yrði Lilja skíthrædd og byrjaði að skrækja eða grenja. Hún myndi líklega vekja alla í húsinu.

„He, he, he“ sagði Lilja og trúði náttúrlega ekki einu orði. Hún leit ergilega á bróður sinn og settist fram á rúmstokkinn. 

„Ef þú stendur þarna þá kemur Jólasveinninn ekki.  Farðu að sofa eins og skot, annars eyðileggurðu allt.“

Jólakötturinn lagði snjóugt  nefið að glugganum og skáskaut augunum forvitnislega inn til að sjá hver væri að tala.

„Hver er nú þetta?“

Lilja glennti upp augun og stökk á fætur þegar hún heyrði þessa rámu rödd. Hún flýtti sér að glugganum og sá Jólaköttinn brosa vandræðalega eins og hann hafi verið staðinn að verki við eitthvað prakkarastrik. Hún þandi lungun og bjóst til að æpa upp yfir sig, en Óliver náði að grípa fyrir munninn á henni. 

„Uss! Ekki, ekki æpa. Hann gerir ekkert.“

 Lilja umlaði undir lófanum og reyndi að færast undan. Óliver gerði það sem hann gat til að róa hana.

„Uss!  Ef þú vekur mömmu og pabba verður allt brjálað. Pabbi þolir ekki ketti og þú veist að mamma er með rosalegt kattaofnæmi.  Þú vilt ekki að hún verði hnerrandi öll Jólin, er það?“

Það slaknaði á Lilju og hún horfði hvasst á köttinn. Óliver fann að hún róaðist og sleppti hendinni af munninum. Lilja var ekki sein á sér að láta í sér heyra.. 

„Viltu koma þér í burtu eins og skot. Fuss! Farðu.“

Kötturinn varð aumur á svip og svaraði eins og fýldur krakki: „ Ég má alveg vera hérna. Þú ræður ekkert yfir götunni.“

„Finnst þér allt í lagi að eyðileggja Jólin fyrir krökkum, sem eru búin að vanda sig við að vera góð í margar vikur?“ sagði hún hvasst og horfði beint í augun á Jólakettinum. „Ætlarðu að spilla fyrir að Kjötkrókur komi og gefi okkur í skóinn? Er ekki í lagi með þig?“

Óliver dró í herðarnar og gaut augum í kringum sig. Hann var verulega smeykur um að Lilja vekti alla með þessum skömmum. Hún var ekki líkleg til að gefa sig né lækka róminn ef kötturinn gegndi ekki.  Hann þekkti systur sína. Hún lét oftast eins og hún réði flestu á heimilinu og talaði nóg fyrir alla. Hún vildi ráða öllu og vita allt og spurði spurninga út í eitt, svo pabbi  kallaði hana ungfrú spurningarmerki. Óliver bar fingurinn að vörum og sagði lágt en ákveðið við köttinn:

„Ekki rífast við hana plís. Það er vonlaust. Gerðu bara eins og hún segir og þá verða engin vandræði. Þú vilt ekki sjá hana í kasti.“

„Hvað heldur þú að svona písl geti gert við mig?  Borið mig í burtu eins og kettling?  svaraði kötturinn og virtist eilítið móðgaður. „Ég geri nú bara eins og mér sýnist.“

„Ef þú gegnir ekki, þá skalt þú eiga mig á fæti.“ sagði Lilja ströng og fékk lánuð orð pabba  þegar hann lagði áherslu á orð sín.

Óliver beit saman tönnum og leist ekkert á hvernig þetta var orðið. Hann horfði fast á köttinn og augun sögðu: „Þarna sérðu.“

„Kötturinn lyfti hökunni snöggt og góndi órólegur inn.  „Hvert er hún að fara?“ spurði hann.

Óliver var ekki alveg að skilja hvað hann átti við og leit í kringum sig. Herbergishurðin var opin upp á gátt og Lilja var horfin. Hann hljóp að hurðinni og greip angistarlega um höfuðið. Hann var næstum búinn að segja „sjitt“ en náði að stoppa sig.

„Ssssj…ampó.“  sagði hann stundarhátt,  hraðaði sér til  aftur kattarins. 

„Sérðu nú hvað þú ert búinn að gera? Nú verður allt vitlaust. Það er eins gott að þú flýtir þér í burtu!“

Jólakötturinn var nú alveg orðinn vankaður af vitleysunni og var farinn að skilja að það var ekkert hægt að tjónka við þessa orma. 

„Þið þessi börn í dag berið enga virðingu fyrir neinu.“

Hann tók loppurnar úr glugganum og stóð nú fjórum fótum á götunni. Hann hugsaði hvort ekki væri rétt að fara eitthvað annað til að finna krakka sem kunnu að hræðast. Þrjóska og sært stolt varð þó skynseminni yfirsterkari. Hann gat ekki látið það spyrjast að hann hafi gefist upp fyrir sjö og níu ára krílum; mörg hundruð ára ráðsettur kötturinn. Hann var varla búinn að ljúka hugsuninni þegar útihurðinni var hrundið upp og Lilja kom askvaðandi út.  Hún bandaði út höndunum eins og vindmilla í roki og sparkaði upp snjó í átt að honum. 

„Pillaðu þig burt sagði ég!“ 

Hún greip upp snjó og byrjaði að hnoða snjóbolta. „Þú eyðileggur ekki Jólin fyrir mér! Ég er ekkert hrædd við þig! Farðu segi ég!“  Snjóbolti flaug í gegnum loftið og lenti á snoppu kattarins. Jafn óforskammað barn hafði hann aldrei séð.

Uppi í glugganum sá Óliver til systur sinnar sparka í legginn á kettinum. Hann varð að stoppa þessa frekjudós áður en illa færi. Hann snaraði sér í buxurnar með hraði og hoppaði um á öðrum fæti með hinn í skálminni og endaði með að detta á rassinn í fátinu.

Það var farið að fjúka í Jólaköttinn. Þetta litla skott sem stóð þarna í kafaldinu var meira en hann gat þolað. „Nú hefur þú aldeilis gengið of langt stelpustýri.  Svona óþekkt gefur mér fullt leyfi til að fara með þig Grýlu. Er það kannski það sem þú vilt, ha?“ 

 Í því að Lilja ætlar að svara honum, sér hún búralegan kall læðast með veggjum hinum megin götunnar. Hann var með skotthúfu, krókstaf í hendi og poka á baki. Það var eins og hann vildi ekki láta sjá sig og tiplaði áfram flóttalegur á svip. 

„Ketkrókur?“ kallaði Lilja yfir götuna. „Hvert ertu að fara? Ertu að reyna að lauma þér fram hjá húsinu okkar?“

Ketkrókur stoppaði snöggt og leit rotinpúrulega í kringum sig. 

„Ég hef ekki tíma til að bíða eftir að þessi bévítans köttur fari. Ég þoli hann ekki. Þú átt svo að vita að ég  stoppa ekki þar sem börn eru vakandi.“  Hann bjóst til að halda áfram ferð sinni.   „Bíddu…!“ gall í Lilju.

Jólakötturinn hafði orðið móðgaður og sár við orð Ketkróks.  „Hvernig getur þú sagt að þú þolir mig ekki þegar þú hefur ekki hitt mig í yfir hundrað ár?“ 

„Ég man ekki út af hverju.“ svaraði Ketkrókur stuttur í spuna. „Ég verð að halda áfram. Maður þarf að klára að afgreiða yfir þrjú hundruð krakka áður en vaktin er búin. Þetta hús verður bara að bíða eftir Kertasníki. Kartöfluskrímslið kemur við og afgreiðir ykkur núna.“

„Katöfluskrímslið?“ sagði Lilja undrandi?

„Það kom hik á Ketkrók. Hann hafði sagt meira en hann ætlaði. „Já, það er verktaki hjá mér. Þið verðið að skilja vinnuálagið á mér. Börnum er alltaf að fjölga. Ég er hættur að ráða við þetta og get ekki bætt á mig að burðast með kartöflur ofan á allt. Maður er við það að kulna í starfi.“

Ketkrókur skálmaði af stað og var við það að hverfa í snjómugguna.  Lilja var ekki að sætta sig við þessi málalok og hljóp á eftir honum. „Þú skalt ekki voga þér að láta setja kartöflur í skóinn okkar. Þú vinnur eina nótt á ári og ættir ekkert að vera að kvarta yfir vinnu.“

„Maður skilur ekki af hverju maður er að leggja þetta á sig fyrir ekkert.“ sagði Ketkrókur mæðulega. „Eftir að þessi hitaveita kom þá eru allir strompar horfnir svo maður verður að láta sér nægja afskrifað kjöt í gámnum hjá Kjörbúðinni. Vertu bara þakklát að ég nenni að standa í þessu.“ 

Hann var farinn að hlaupa við fót, en Lilja elti.  Kötturinn kjagaði þunglamalega af stað á eftir þeim. Í sömu mund kom Óliver stökkvandi út um dyrnar, dúðaður upp fyrir haus. Hann dró trefilinn frá munninum og kallaði. „Lilja! Ertu alveg búin að missa vitið?“ Hann hljóp á eftir henni og tók sér skjól fyrir snjókomunni undir Jólakettinum.

Þegar Lilja var alveg að ná Ketkrók þá stakk hann krókstafnum snögglega upp í loft og krækti í gluggasyllu fyrir ofan sig og vó sig eldsnöggt upp.

„Nei, heyrðu mig nú!“ gargraði Lilja reiðilega. „Komdu hérna niður eins og skot!“ 

Ketkrókur lét sem hann heyrði ekki og hvarf sjónum innum glugga. Lilja urraði af reiði. Jólakötturinn var nú kominn aftan að henni með undirförult glott um kjaftinn. „Jæja.“ sagði hann lymskulega. 

Lilja leit hvasst á hann. „Jæja hvað?“

 Kötturinn sýndi gular tennurnar og hvæsti lágvært og ógnvekjandi. 
„Ég  er búinn að vera að hugsa málið og fékk frábæra hugmynd. Þú ert búin að vera óþekkari en nokkurt barn sem ég hef hitt í meira en öld svo mér er örugglega leyfilegt að taka þig með mér.  Grýla verður himinlifandi að fá að éta þig.  Loksins fæ ég að komast í hellinn og orna mér við eldinn eftir öll þessi ár úti í kuldanum.
Sú verður nú ánægð með kisa sinn.“ 

Áður en Lilja gat sagt orð glefsaði kötturinn í hálsmálið á henni og hóf hana á loft í skoltinum.

„Láttu mig niður!“  öskraði Lilja barðist um. 

„Láttu hana í friði!“ hrópaði Óliver. Hann sem var farinn að trúa að Jólakötturinn væri meinlaus vitleysingur. Það var þá bara allt í plati til að lokka þau til sín.

Kötturinn stökk af stað með Lilju í kjaftinum. Óliver var snöggur til og kastaði sér á skottið.  Hann hélt eins fast og hann gat í feldinn. 

Jólaötturinn þaut í loftköstum yfir húsþökin með þau, svo snjórinn rann af með drunum þegar fæturnir skullu á þeim. Tapp, tapp, tapptapptapp.  Þau hurfu öll í kafaldið í átt til fjalla og loks ríkti þögnin ein í tómri götunni.

Framhald fljótlega – fylgist með.

Ef þú misstir af fyrsta hluta má finna hann hér.