Það andaði köldu frá gluggarúðunni og klaki hafði safnast á innanverðunni. Þarna stóðu skór í kistunni skínandi í kvöldblámanum. Jólaskór. Einn með glitrandi steinum og ökklabandi og hinn gljáandi leðurskór sæmandi minni gerðinni af herramanni.

Systkinin voru lögst í rúmin og höfðu fengið koss á ennið frá mömmu sem leið út úr herberginu eins og reykur og lokaði á eftir sér. Það var háttatími en augun voru upp á gátt. Þau lágu kyrr og heyrðu bara eigin andardrátt. Kafald var úti fyrir og skuggaspil þess lék um herbergisveggina.

Alla aðventuna höfðu þau lagt skóinn í glugga og verið þæg og prúð í von um eitthvað fallegt eða gómsætt að launum. Epli, súkkulaði eða lítið leikfang. Súkkulaði sem hafði tekið sér leðurkeim af glænýjum skóm og epli sem fyllti herbergið af sætri angan. Kerti og spil, eins og í vísunni. Eins og fyrir töfra birtist þetta meðan heimurinn var í fasta svefni.

Alla aðventuna höfðu þau reynt að vaka til að sjá jólasvein seilast varlega inn um gluggann með eitthvað gott í hendi. Rytjulegan og skrýtinn kall en ekki rauðklædda fitubollu. Okkar jólasveinar, hrekkjóttir og óútreiknanlegir. Stekkjastaur, Giljagaur og bræður þeirra. Nú kæmi Ketkrókur öslandi til byggða.

Alltaf kom svefninn eins og blæja yfir augun áður en varði og þau svifu burt í undraland draumanna. Drauma sem náðu oftast ekki lengra en að langþráðu aðfangadagskvöldi með tindrandi ljósum, blaktandi kertum, grenilykt og gjöfum sem lítil hjörtun þráðu. Gjallandi klukkum í útvarpinu sem þöndu hverja taug af tilhlökkun til gjafanna sem biðu undir trénu á meðan jólamáltíðin stóð frá eilífð til eilífðar. Maturinn sem mamma og pabbi höfðu nostrað við frá morgni og fyllti húsið flókinni og dýrðlegri angan. Það þurfti oftast að leyfa þeim að opna einn pakka til að slaka á spennunni svo þau gætu borðað.

Nóttin var sú ágæt ein, í allri veröld ljósið skein. Bjartar barnsraddir fylltu loftið og allt var eins og af annarri veröld. Veröld ljóss og friðar sagði presturinn í útvarpinu. Veröld ólík öllum dögum ársins.

Óliver fann höfgina líða yfir. Lilja litla systir hans hafði liðið í draumalandið þrátt fyrir einbeitta viðspyrnu. Endalaus þögnin, mjúk og glæný náttföt og nýviðruð sæng með útilykt. Sælan var að sigra vöku hans. Hann ætlaði þó ekki að gefast upp eins öll kvöldin á undan.

Dagarnir höfðu verið hjúpaðir dökkblárri dimmu. Hlýrri dimmu þótt frostið nartaði í rauðar kinnar og það stirndi á sultardropa á rjóðum nebbum. Stjörnubjört og endalaus himinhvelfingin grúfði yfir þorpinu sem verndandi hjúpur þar sem fólkið rölti um snævi þaktar götur með blíðleg bros. Búðargluggarnir lýstu með nikkandi Jólasveinum, músastigum og freistandi leikföngum. Marglit ljós blikuðu í draumstolnum augum barna og grýlukertin sem brydduðu gluggasillur og þök spegluðu dýrðina. Allt var eins og draumar nætur hefðu birst í ljósri vöku.

Þetta voru dagar þar sem allir lögðu sig fram um að hugsa til annarra framar sjálfum sér. Hugir manna í tendruðum þönkum um gjafir til þeirra sem kærastir voru og þeirra sem minna máttu sín. Klink í bauka hjálpræðishersins. Fræ eða skorið epli á kvisti fyrir smáfuglana. Allt svo aðrir fyndu hlýjan kærleiksloga í brjósti eins og fólk fann í sjálfu sér. Þessi tími sannaði að þrá um frið gat ræst þrátt fyrir argaþras og lýjandi skyldur liðinna daga, bara ef fólk ákvað að svo skyldi vera. Að koma fram við aðra eins og maður vildi að aðrir kæmu fram við sig var lausnarþulan.

Nóttin var lítið myrkari en dagurinn. Mánaljósið lét ekki truflast af skýjum en breytti þeim í lýsandi hnoðra. Það fennti. Hundslappadrífa leið til jarðar. Hún bryddaði trjágreinar og lagði mjúka voð yfir þorpið.

Óliver fann augnlokin þyngjast. Hann lá á hliðinni og rýndi um rifurnar að glugganum. Jólastjarnan sem logaði þar sýndist skjóta hárbeittum geislum um herbergið þegar augun pírðust. Eyrun reyndu að nema allt, en ekkert heyrðist nema suðið í ofnunum. Svo heyrðist örlítið þrusk. Hann galopnaði augun en það var bara Lilja að snúa sér. Eða hvað? Meira þrusk og svo hljóð eins og þegar mamma bankaði motturnar úti á snúrunum fyrr um daginn. Hjartað sló örar og Óliver læddi sér á fætur eins varlega og honum var unnt. Var Ketkrókur kominn?

Gólfið var kalt viðkomu. Hann kreppti tærnar eilítið, læddist að glugganum og passaði sig á því að láta gardínuna skýla sér svo hann fældi ekki sveinka. Hann gægðist ofurvarlega út með öðru auga.

Þar var ekkert að sjá nema snjódrífuna líða mjúklega niður. Í fjarska kúrðu húsin með daufa ljóma í gluggum. Þögn. Endalaus ofurdjúp þögn.

Kannski var þetta ímyndun.

Þegar hann sneri sér til að smeygja sér undir sængina að nýju heyrði þetta klappandi hljóð aftur. Tapp, tapp, tapptapptapp. Hann þaut út í gluggann. Augun voru þanin af spenningi. Hann gleymdi að leynast og stóð starandi fyrir miðjum glugga. Stórir snjóflákar flugu hjá til jarðar. Tapp, tapp, tapp. Litla hjartað sló örar og öll syfja var á bak og burt. Þá áttaði hann sig á hvað þetta var. Þetta var bara snjórinn að renna af þakinu.

Óliver kímdi örlítið vandræðalega með sér og varp öndinni léttar, en í sömu mund skaut þeirri hugsun í kollinn að þetta gæti kannski verið Ketkrókur að brölta á þakinu. Hann var jú vanur að renna færi sínu niður um strompinn í von um hangiketsbita. Þótt jólasveinar væru gjafmildir, þá voru sumir þjófóttir og aðrir óttalegir hrekkjalómar.

Óliver lagði andlitið að köldu glerinu og reygði höfuðið upp í von um að sjá upp á þakbrúnina. Það var auðvitað vonlaust, en rétt á meðan hann var að brölta þetta leið dimmur skuggi fyrir gluggann. Honum brá svo að hann var nærri dottinn í gólfið. Hvað var þetta?

Sama hvað hann rýndi út, sá hann ekkert. Engin spor og ekki sála á ferð. Bara muggan sem lék í skini ljósastauranna. Enginn skuggi.

Skórnir þeirra Lilju voru enn tómir. Það væri kannski best að kúra sig niður og reyna að sofna. Ekki vildi hann verða til þess að fá ekkert í skóinn. Fæla Ketkrók frá. Hann gæti jafnvel tekið þessu sem óþekkt. Óliver leist illa að finna bara kartöflu eða harðort bréf í skónum að morgni. Annað eins hafði jú skeð. Engu barni hafði tekist að standa jólasvein að verki enn, svo það var máski óttalega heimskulegt að láta sér detta þetta í hug.

Rétt í þann mund sem hann ætlaði að læðast til baka fannst honum sem skugganum svarta bæri fyrir aftur. Hann leit snöggt út um gluggann. Þarna sá hann þá skelflegustu sýn sem hann hafði nokkru sinni séð. Við honum blöstu risastór og lýsandi augu sem voru svo stór að þau fylltu út í gluggann. Hann horfði stjarfur á þessa skelfilegu sýn og þessi skelfilega sýn starði grimmúðlega á móti. Svo birtust hvassar og grimmilegar tennur neðan augnanna, gular og mjóar eins og spjót. Óliver saup hveljur og það var sem rafstraumur færi í gegnum hann. Skrímslið hjó höfðinu að glugganum eins og það ætlaði að mölva sér leið inn og hvæsti illskulega svo rúðurnar glömruðu. Hvsssssst!

Framhald síðar – fylgist með.