Áhöfnin á Múlaberginu ásamt mökum komu saman í Bláa húsinu á Rauðkutorgi laugardagskvöldið 2. júní til að gera sér glaðan dag. Tilefnið var að halda upp á sjómannadaginn eins og hefð er fyrir. Áhöfnin tók sig saman í gleðskapnum og heiðraði fjóra fyrr- og núverandi skipverja sem eru komnir á “aldur” eins og það er kallað í daglegu tali. Fengu þeir viðurkenningaskjöld þar sem útgerð og áhöfn þakkar þeim farsælt samstarf.

Áhöfnin á Múlaberginu ásamt mökum
Þeir sem heiðraðir voru eru:
Gísli Jónsson fæddur árið 1948, byrjaði hann sinn sjómannsferil á Hafliða SI 2 árið 1965 og var til sjós fram til 2017. Var hann alls 40 ár hjá Rammanum og þar af 18 ár á Múlaberginu. Sjómannsferill Gísla stóð yfir í 52 ár.
Júlíus Árnason, fæddur árið 1948, byrjaði hann sinn sjómannsferil á Hafliða SI 2 árið 1964 og var til sjós fram til 2017. Starfaði hann á Múlaberginu í 14 ár. Sjómannsferill Júlla stóð yfir í 53 ár.
Kristján Bjarnason, fæddur árið 1953, byrjaði hann sinn sjómannsferil á Hafliða SI 2 árið 1967 og var til sjós fram til 2017. Hafði hann starfað sem skipstjóri hjá Rammanum í 39 ár, þar af 19 ár á Múlaberginu. Sjómannsferill Stjána stóð yfir í 50 ár.
Sigurður Örn Baldvinsson, fæddur 1948, byrjaði hann sinn sjómannsferil á Sigurði SI árið 1965. Sigurður hefur starfað sem kokkur á Múlaberginu undanfarin 19 ár og er enn að. Sjómannsferill Sigga hefur staðið yfir í 53 ár.
Samanlagt hafa þessir fjórir heiðursmenn starfað til sjós í 208 ár.
Þeir vildu þó allir meina að þeir hefðu byrjað fyrr á sjó þó það hafi ekki ratað í sjóferðabækur, allt niður í 10 ára.

Hér er Júlíus Árnason að þakka fyrir sig

Friðrik Jónsson hélt þessa glimrandi ræðu

Ragnar Aðalsteinsson færði þeim Árna og Gísla þakklætisvott frá Rammanum

Fallegur skjöldur

Kátt á hjalla

Bæjarlistamaður Siglufjarðar, Sturlaugur Kristjánsson spilaði við góðar undirtektir

Hér má sjá í sjóferðabók Kristjáns Bjarnasonar þar sem Sigurjón Jóhannsson skipstjóri lögskráði hann á Hafliða SI 2 þann 7. júní 1967

Kristján Bjarnason hefur varðveitt allar sínar sjóferðabækur frá fyrstu tíð

Það er margs að minnast
Texti og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir