Myndband um Tröllaskagamódelið var meðal sextán nýrra myndbanda sem frumsýnd voru á UTÍS menntaviðburðinum um síðustu helgi. Myndböndin bera yfirskriftina Ferðalag um íslenskt skólakerfi og þar er fjallað um fjölbreytt skólaþróunarverkefni í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Tröllaskagamódelið er heitið á þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki skólanum og er því í raun lýsing eða skilgreining á því hvernig MTR virkar, hver er menntunarfræðin og hvernig vinnu nemenda og kennara er háttað. Hér má sjá myndbandið og hér eru öll sextán myndböndin.

Utís er árlegur menntaviðburður á netinu þar sem skólafólk á öllum skólastigum myndar lærdómssamfélag sem ræðir og fræðist um upplýsingatækni, skólaþróun og nýsköpun í skólastarfi. Frumkvöðlar í kennsluháttum halda fyrirlestra og þátttakendur ræða sín á milli svo úr verður mikill suðupottur hugmynda og nýjunga sem hver og einn getur tekið með sér í sitt starf innan

Hvatamaðurinn af UTÍS er Ingvi Hrannar Ómarsson en hann hefur um árabil hvatt til nýsköpunar og þróunar í kennsluháttum í störfum sínum sem kennsluráðgjafi við Árskóla á Sauðárkróki, verkefnastjóri og kennsluráðgjafi í skólaþróun, nýsköpun og upplýsingatækni hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og nú síðast sem sérfræðingur hjá Menntamálaráðuneytinu. Hann hlaut hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2020 fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli.

Mynd/skjáskot úr myndbandinu