Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, undirritaði í dag samning við Sjúkratryggingar Íslands um sveigjanlega þjónustu í dagþjálfun fyrir aldraða.

Samningurinn felur í sér aðlögun og umbreytingu á þjónustu sveitarfélagsins í dagdvalar og dvalarrýmum á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku.

Markmiðið er að mæta þörfum notenda sem búa heima og þurfa stuðning til áframhaldandi búsetu á heimili sínu. Um er að ræða heimild til að starfrækja breytt úrræði á vettvangi dagdvalar og þjálfunar, það er almenna dagdvöl eins og verið hefur og auknar áherslur á sérhæfða dagdvöl vegna heilabilunar og vegna endurhæfingar.

Með þessu eykst sveigjanleiki úrræða á margan hátt. Á næstu mánuðum verður unnið að því að móta starfið og þjónustuna að þörfum notenda. Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá því á síðasta ári og er samningurinn við Sjúkratryggingar Íslands grundvallaður á heimild sem heilbrigðisráðherra gaf í september 2021 um að Fjallabyggð hefði frumkvæði að nýsköpunar og þróunarverkefni á sviði sveigjanlegrar dagþjálfunar með áherslu á samþættingu félagslegrar og heilbrigðisþjónustu við eldra fólk.

Auk þess verður lögð áhersla á innleiðingu ýmiskonar tækni og öðrum lausnum sem stutt geta eða stuðlað að sjálfstæði, sjálfsbjörg og lífsgæðum íbúa.

Mynd/Fjallabyggð