Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um úthlutun á 213 tonnum af byggðakvóta til Fjallabyggðar af alls 3.807 þorskígildistonnum til ráðstöfunar til byggðarlaga víðs vegar um landið fyrir fiskveiðiárið 2024-2025 en auk þess eftirstöðvar af úthlutun fyrra árs sem kemur til ráðstöfunar á yfirstandandi fiskveiðiári.

Samtals til ráðstöfunar eru því 318 tonn fyrir fiskveiðiárið, ríflega 41 tonn til Ólafsfjarðar og um 277 tonn til Siglufjarðar.

Fjallabyggð er gefinn frestur til 21. febrúar n.k. til að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur úthlutunar í sveitarfélaginu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarstjórn drög að reglum um byggðakvóta fyrir Fjallabyggð þar sem haft verði að leiðarljósi hámarksnýting byggðakvótans. Bæjarráð telur mikilvægt að óska áfram eftir auknum sveigjanleika vegna vinnsluskyldu fyrir Fjallabyggð vegna þeirra aðstæðna sem eru fyrir hendi í sveitarfélaginu.