Með sumarkomu og hækkandi sól taka margir drónaflugmenn fram dróna sína. Mikilvægt er að fara vandlega yfir drónann eftir vetrargeymsluna og fullvissa sig um að allt sé í lagi. Þar sem áríðandi er að öryggið sé í fyrirrúmi við notkun þessara skemmtilegu tækja er ástæða til að árétta reglur sem gilda um notkun þeirra. Reglurnar gera skýran greinarmun á tómstundaflugi og notkun dróna í atvinnuskyni. Þær eru ekki margar eða flóknar en sem dæmi er mikilvægt að hafa í huga:

  • Hámarksflughæð er 120 metrar. Þau sem stunda atvinnuflug geta sótt um undanþágu frá hæðartakmörkunum.
  • Flugvellir og nágrenni þeirra eru ekki fyrir dróna!
  • Drónaflugmenn verða að taka tillit til manna og dýra, hvorki valda ónæði, skaða fólk eða dýr né valda eignatjóni. Því eru í gildi reglur um flug í grennd við íbúðarhúsnæði og annars staðar þar sem fólk dvelst og á athafnasvæðum gilda almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuvernd.
  • Merkja þarf dróna með nafni, heimilisfangi og símanúmeri.
  • Ef nota á dróna í atvinnuskyni er skylda að skrá hann. Skráning dróna kostar ekkert og fer fram rafrænt hér. Sérstaklega er brýnt að atvinnudrónar séu skráðir, hvort sem þeir eru notaðir við myndatökur, fréttaöflun, mælingar, rannsóknir eða flutning á vörum.
  • Þau sem stunda atvinnuflug með drónum geta sótt um undanþágu frá reglugerðinni. Þeim umsóknum þurfa að fylgja ítarleg gögn um starfsemina. Hægt er að sækja um undanþágu hér.


Allar upplýsingar fyrir eigendur dróna má nálgast á vef Samgöngustofu: www.samgongustofa.is/dronar. Samgöngustofa hefur einnig gefið út myndband um nokkur grundvallaratriði drónaflugs.

Reglugerð um fjarstýrð loftför (dróna) nr. 990/2017
Gjaldskrá Samgöngustofu
Spurt og svarað um dróna

Mynd: Samgöngustofa