á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra má finna þessa færslu frá því fyrr í dag .
Ein af starfsskyldum lögreglunnar er að fylgjast með ástandi ökumanna. Við tökum þá starfsskyldu alvarlega og erum dugleg að stöðva ökumenn í þessum tilgangi enda er vímuakstur ein af þremur algengustu orsökum banaslysa hér á landi. Þrátt fyrir það er allt of algengt að það mælist í fólki áfengi, fíkniefni eða lyf. Stöðugt berast fréttir af því að svo og svo margir hafi verið teknir úr umferð, grunaðir um að vera ekki hæfir til aksturs vegna vímuáhrifa. Þegar gluggað er í dagbók okkar hér á Norðurlandi eystra, sjáum við að bara í þessum mánuði hafa verið bókuð 33 vímuakstursmál. 21 var undir áhrifum fíkniefna, 7 voru ölvaðir, 3 voru undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna og 2 voru undir áhrifum lyfja. Þetta eru 33 mál á 19 dögum!
Það er vissulega mikið áhyggjuefni að svo margir skuli vera að aka án þess að vera í ástandi til þess. Það sem er þó jákvætt er að við erum ,,á tánum“ og flest þessara mála eru vegna eftirlits lögreglu. Einnig er alltaf nokkuð um að við fáum ábendingar og tilkynningar frá borgurum og metum við það mikils. Umferðaröryggi er samstarfsverkefni okkar allra og við ættum öll að sýna þá samfélagslegu ábyrgð að tilkynna um vímuakstur. Það gerum við með því að hringja í Neyðarlínuna – 112.
Frétt tekin af facebooksíðu: Lögreglunnar á Norðurlandi eystra