Þau ánægjulegu tíðindi hafa borist að framtak þeirra Guðrúnar Hauksdóttur og Steingríms Óla Hákonarsonar í að hefja slátt í gamla kirkjugarðinum á Siglufirði hefur orðið til þess að þau hafa verið ráðin í að sjá um báða kirkjugarðana í sumar.

Í júní var hávær umræða um umhirðu gamla garðsins sem var allur í órækt og óslegin. Á því voru margar skýringar eins og kom fram í frétt sem birtist hér á Trölla.is. Sjá frétt: Hiti í mönnum varðandi kirkjugarð á Siglufirði

Þegar þessi umræða var sem hæst tóku þau Guðrún og Steingrímur Óli sig til og hófu slátt í gamla kirkjugarðinum í sjálfboðavinnu ásamt fjölda manns sem komu þeim til hjálpar við þetta gríðarlega erfiða verk. Þau slógu garðinn ekki eingöngu heldur snyrtu tré og runna sem voru úr sér vaxin eftir margra ára vanhirðu.

Í framhaldi af þessu framtaki voru þau ráðin af sóknarnefnd til að taka að sér umhirðu beggja garðanna. Nú er komið að okkur hinum að huga að leiðum okkar nánustu og taka til þar í kring, augljóst er að margir hafa komið að undanförnu og snurfusað í kringum sína.

Mikil órækt var í gamla kirkjugarðinum þegar hafist var handa við slátt

 

Gamli kirkjugarðurinn var erfiður við að eiga og mikil órækt

 

Vart sást í fjölda legsteina þegar hafist var handa

 

Hér má sjá hvað beið sjálfboðaliðanna þegar sláttur hófst

 

Sigurjón Veigar Þórðarson að laga til á leiði frænda síns, langömmu og langafa. Hann kom frá Grindavík til að aðstoða.

 

Óskar Máni Sigurjónsson lét ekki sitt eftir liggja í að aðstoða

 

Kirkjugarðurinn kominn í gott horf og bænum til sóma

Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir