Eyþór Ingi Gunnlaugsson og Lay Low (Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir), voru að gefa út nýtt lag sem heitir Aftur heim til þín.
Lagið verður leikið á FM Trölla í dag, í þættinum Tíu Dropar sem er á dagskrá alla sunnudaga kl. 13 – 15.

Þetta er í fyrsta skipti sem út kemur lag sem þau Eyþór og Lay Low syngja saman.

Myndbandið er sérlega skemmtilega unnið, aðeins ein taka og hvergi klippt, en myndavélin ferðast milli flytjenda á mjög frumlegan og skemmtilegan hátt, þar sem flytjendurnir eru sumir utan dyra og aðrir hver í sínu herbergi en sameinast svo í lokin.

Eyþór segir að samstarfið hafi verið skemmtilegt og undirbúningurinn ekki síður.

Nína Richter samdi textann og einnig grunninn að laginu ásamt Baldri Hjörleifssyni, sem er æskuvinur Eyþórs.

Þau Eyþór og Lay Low unnu svo lagið áfram. Lagið er frumsýnt nú um helgina þar sem titillinn þykir eiga vel við ástandið í þjóðfélaginu þessa dagana.

Að sögn Eyþórs er lagið tilvalið fyrir byrjendur á gítar til að spreyta sig og syngja með.

Hljóma og texta má finna á gitargrip.is.

Flytjendur eru:
Eyþór Ingi og Lay Low: söngur og gítar
Rodrigo dos Santos Lopes: slagverk
Valdimar Olgeirsson: kontrabassi
Reynir Snær Magnússon: rafgítar
Þorleifur Gaukur Davíðsson: munnharpa