Skemmtiferðaskipakomur hafa aldrei verið fleiri – en von er á 42 slíkum heimsóknum í sumar, frá miðjum maí og fram í september. Heildarfjöldi farþega er um 7.200. Komudagatal er hægt að skoða á vefsíðu hafnarinnar: https://www.fjallabyggd.is/port/

Í raun má segja að gríðarlega mikill árangur hafi náðst í markaðsstarfi fyrir Siglufjörð sem áningarstað skemmtiferðaskipa – en fyrir bara fjórum árum voru sex heimsóknir bókaðar, en nú 42 sem fyrr segir.

Sjö skipulagðar ferðir eru í boði fyrir farþega: heimsókn á Síldarminjasafnið, í Þjóðlagasetrið, Segul 67 eða Fríðu súkkulaðikaffihús, auk þess sem farþegar geta farið í sögugöngur um bæinn undir leiðsögn heimamanna, reiðtúra frá Sauðanesi eða í gönguferðir eða kajakasiglingar með Gesti Hanssyni hjá Top Mountaineering.

Hér að neðan er mynd sem var tekin 12. júní 2012, þegar skemmtiferðaskip voru sjaldséð hér á Siglufirði. Það hefur mikið breyst hér við höfnina eins og sjá má til að bæta aðstöðu stórra skipa til batnaðar.

Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands

 

Texti: Aðsendur
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir