Húni, ársrit Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga er kominn út. Þetta er 41. árgangur ritsins vegna ársins 2019. Í ritinu sem er rúmar 200 bls. eru frásagnir, viðtöl, ljóð og annar fróðleikur er tengist Húnaþingi vestra. Einnig er minnst látinna í sveitarfélaginu á árinu 2019 auk ítarlegra frétta úr hinum ýmsu byggðum sveitarfélagsins sem alls sjö fréttaritarar hafa skrásett.
„Forsíðuviðtalið“ er að þessu sinni við Brynju Bjarnadóttur á Hvammstanga og einnig er m.a. fjallað um sjúkrahúsið á Hvammstanga sem átti 100 ára afmæli á árinu.
Veg og vanda að útgáfu Húna hefur sex manna ritnefnd sem unnið hefur óeigingjarnt starf við útgáfuna. Ingi Bjarnason sem hefur verið eins konar ritstjóri undanfarin ár lætur nú af störfum í ritnefndinni og fær hann alúðarþakkir fyrir sitt framlag ásamt öðru ritnefndarfólki. Útgáfan er styrkt af Uppbyggingasjóði Norðurlands vestra.
Ritið er að berast áskrifendum þessa dagana. En það er einnig til sölu hjá verslun KVH, í Bókasafni Húnaþings vestra á Hvammstanga og í Riishúsi á Borðeyri. Eins er hægt að óska eftir áskrift á netfangið usvh@usvh.is .