Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2021 voru afhent í gær. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykir standa sig afburðavel í að efla skagfirskt samfélag.

Auglýst var eftir tilnefningum og bárust rúmlega 20 tilnefningar í ár. Það var því úr vöndu að ráða fyrir atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sveitarfélagsins að velja úr mörgum góðum kostum.

Sá aðili sem hlýtur samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2021 er Stefán R. Gíslason tónlistarkennari og kórstjóri í Varmahlíð.

Stefán Gíslason hefur verið leiðandi í tónlistarlífi Skagfirðinga um áratuga skeið. Gildir þar einu hvort um er að ræða kennslu, kórstjórn eða menningarviðburði þar sem tónlistin hefur verið aðalatriðið og er Stefán alltaf tilbúinn að koma að slíku. Undir hans stjórn hafa karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður og kirkjukórar náð miklum vinsældum innanlands sem utan. Hann hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum m.a. undir formerkjum Sönglaga á Sæluviku. En fyrst og síðast er Stefán einstaklega samfélagslega þenkjandi og telur ekki eftir sér að leggja góðum málefnum lið með sjálfboðnum framlögum. Hinn ljúfmannlegi en metnaðarfulli kennslu og uppeldisþáttur hans með nemendum hefur svo opnað mörgum heim tónlistar svo eftir hefur verið tekið og fjölmargir nemendur hans gert tónlist að atvinnu sinni ekki síst fyrir tilstilli Stefáns.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í fyrsta sinn á setningu Sæluviku Skagfirðinga árið 2016.

Handhafar Samfélagsverðlauna Skagafjarðar eru:

2016 – Stefán Pedersen.

2017 – Kristmundur Bjarnason.

2018 – Hjónin Árni Stefánsson og Herdís Klausen.

2019 – Geirmundur Valtýsson.

2020 – Helga Sigurbjörnsdóttir.

2021 – Stefán R. Gíslason.

Sveitarfélagið Skagafjörður vill koma á framfæri þökkum til Stefáns fyrir allt hans góða og óeigingjarna starf í þágu samfélagsins.

Ingibjörg Huld Þórðardóttir afhenti Stefáni Samfélagsverðlaun Skagafjarðar fyrir hönd atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar.

Hægt er að horfa á afhendingu samfélagsverðlaunanna á heimasíðu Sæluviku, saeluvika.is.

Myndir/Sveitarfélagið Skagafjörður