Á vef Hagstofu Íslands segir að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára var 79,6% af mannfjölda á fjórða ársfjórðungi 2019, eða að jafnaði um 206.400 manns. Þar af töldust að meðaltali 6.800 manns vera atvinnulausir, eða um 3,3%. Á sama tíma voru um 2.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,1% starfa, samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 4.900 manns atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2018 og jókst atvinnuleysi um 0,9 prósentustig á tímabilinu.
Af þeim sem voru atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2019 höfðu að jafnaði um 3.600 manns verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 52,7% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu um 3.500 verið atvinnulausir í tvo mánuði eða skemur á sama tíma 2018, eða 48,3%.
Um 700 manns höfðu verið langtímaatvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2019 eða 10,5% atvinnulausra, en langtímaatvinnulausir teljast þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur. Til samanburðar voru um 500 manns langtímaatvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2018 eða 7,5% atvinnulausra.
Fjöldi starfandi fólks var um 199.700 á fjórða ársfjórðungi 2019, eða 77,0% af mannfjölda, sem er aukning um 800 manns frá fjórða ársfjórðungi árið á undan. Hlutfall starfandi lækkaði þó um 1,6 prósentustig fyrir sama tímabil. Fjöldi starfandi í fullu starfi jókst um 5.400 manns frá fyrra ári, en af starfandi fólki voru 77,2% í fullu starfi, sem er aukning um 2,4 prósentustig frá fjórða ársfjórðungi 2018.
Um 53.000 manns töldust utan vinnumarkaðar á fjórða ársfjórðungi 2019, sem er fjölgun um 3.600 manns. Áætlaður mannfjöldi á aldrinum 16 til 74 ára jókst á sama tíma um 2,5%, úr um 253.100 í 259.400 manns.