Lilja María er sú eina úr fjölskyldunni sem er ósmituð. Það er líka eins gott því hún rekur nú mötuneytið í F23 ásamt því að deila út lyfjum og öðrum nauðsynjum

Hjónin Lilja María Norðfjörð og Sigurður Ingi Einarsson búa í Seljahverfinu í Reykjavík ásamt þremur af fjórum börnum sínum, þeim Sunnevu, Benóný og Hermanni, tengdabörnum Arnari og Hörpu og tveimur hundum.

Sigurður er smitaður af Covid-19 ásamt börnum og tengdabörnum sem dvelja öll á heimilinu., alls 7 manns. Lilja er ósmituð. Þannig að það eru 6 einstaklingar veikir á heimilinu.

Gefum fjölskyldunni orðið:

Eins og gefur að skilja er oft líf og fjör á þessu heimili. Sigurður vinnur  hjá Vatn og veitur, Lilja er grunnskólakennari, Arnar vinnur á leikskóla og hinir eru í skóla. 

Benóný, Sunneva og Harpa voru komin í fjarnám við sína skóla og hittu því ekki svo mikið af fólki. Lilja var í vinnu, Sigurður var farinn að vinna heima en Arnar var í vinnu á leikskólanum þegar Covid-19 bankaði upp á hjá fjölskyldunni.

Grunur vaknar um smit

Allt byrjaði þetta á því að Arnar fór að kvarta yfir því að hann fyndi ekki bragð af mat. Lilja gerði hálfgert grín að honum þegar hann tilkynnti að hann væri að fara í próf fyrir Covid-19, að það væru nú ekki margir sem fengju að fara í svona próf verandi illt í stóru tánni. 

Arnar hafði þó einhverjum dögum áður verið slappur, með hitavellu og niðurgang. 

Lilja hafði þó mun meiri áhyggjur af Hörpu, tengdadótturinni sem sýndi svo augljós einkenni Covid-19, hiti, sviti, mæði, illt í lungunum, hundslöpp og með niðurgang en fékk ekki að fara í Covid-19 próf. Harpa á yngri bróður sem er með hjartagalla og því í áhættuhópi gagnvart sjúkdómnum og því vildi hún ekki fara heim til sín ef hún væri sýkt. Hún var því einskonar fangi hjá fjölskyldunni í F23. 

Á heimilinu er lagt á borð fyrir 1 í sóttkví og 6 í einangrun

Bræðurnir, Hemmi og Benóný voru báðir búnir að vera veikir, Hemmi með lungnabólgu, staðfesta með röntgen, Benóný fyrst með einkyrningasótt og svo lungnabólgu en nýbúinn í myndatöku sem sýndi hrein lungu. Þeir voru því báðir hóstandi, Benóný þó sínu verri, með hóstaköst þannig að hann blánaði upp og náði ekki andanum en mamman orðin langþreytt á hósta og öðru veseni og klíndi þessum einkennum á léleg lungu og astma. 

Fyrsta tilkynning um staðfest smit

Hálf átta á mánudagskvöldið 30. mars er hringt í Arnar og honum tilkynnt að hann sé með Covid-19. 

Þá fór allt á fullt hjá fjölskyldunni. Morguninn eftir var haft samband við heilsugæsluna og fékk öll fjölskyldan að koma í próf á sömu heilsugæslu þrátt fyrir að vera skráð hingað og þangað um höfuðborgina. 

Farið var á 2 bílum og fannst fólki þetta misvont. Lilja fékk til að mynda kröftugar blóðnasir eftir prófið og sama gerðist hjá Hörpu. Allt gekk þetta þó og nú beið fjölskyldan eftir niðurstöðum. 

Lilja mætti ekki til vinnu frá og með mánudeginum vegna þess að Arnar hafði verið í prófi og var komin í sóttkví um leið og hann reyndist jákvæður. Aðrir höfðu verið heima þannig að það var óbreytt ástand hjá þeim. 

Þá hófst smitrakning

Smitrakningarteymið hafði í nægu að snúast varðandi ferðir Arnars og þegar upp var staðið voru 20 manns komnir í sóttkví, allir í F23, öll börnin á leikskóladeildinni sem hann starfar á og svo vinir og nánasta fjölskylda. Sem betur fer sýna engir aðrir einkenni en við í F23. 

Niðurstöður Lilju lágu fyrir snemma á þriðjudagsmorgni, heilsuvera upplýsti með skilaboðum að hún væri ekki smituð. Nú fóru aðrir heimilismeðlimir að „refresha“ símana sína en engar niðurstöður bárust þann daginn. 

22:45 var þó hringt í Sunnevu og henni tjáð að hún væri smituð af Covid-19. Það kom svo sem engum á óvart, hún verandi kærasta Arnars var eðlilega í mestri áhættu og svo var hún líka búin að vera eitthvað slöpp. 

Hér er fjölskyldan að stytta sér stundir með spilamennsku, í þetta sinn var sólstrandarþema í klæðaburði

Sunneva er ófrísk

Nú má uppljóstra því að Sunneva er ófrísk, gengin tæpar 18 vikur og því hefur henni og okkur hinum þótt erfitt að vita hvort hún er slöpp af því að hún er ófrísk eða af því að hún er með Covid-19. 

Daginn eftir tóku allir símar að hringja. Siggi með  Covid-19, Harpa með Covid-19, Benóný með Covid-19 og Hemmi með Covid-19. 

Allir þurftu smá stund til að jafna sig á tíðindunum. 

Skömmu seinna hringdu allir símar aftur. Í þetta sinn var það smitrakningarteymið. Einn fór í sóttkví eftir samneyti við Sunnevu, nokkrir eftir samneyti við Hörpu en aðrir höfðu ekki hitt neinn. 

Eftir þessi símtöl hringdu allir símar aftur. Að þessu sinni var það Landspítalinn að taka heilsufarsskýrslu. Stuttu seinna hringdi ljósmóðir í Sunnevu og Barnaspítalinn vegna allra sem eru undir 18 ára sem eru Harpa, Benóný og Hermann. 

Þessi dagur fór í að jafna sig á tíðindunum og stöðunni. Finna björtu punktana og sjá hver næstu skref væru. 


Fjölskyldan er afar samrýmd og býr í “F23”, allir heimilismeðlimir nema sá yngsti eru með F23 tattoo

Bjartir punktar þrátt fyrir ástandið

Björtu punktarnir eru að við erum mörg saman. Við höfum félagsskap hvert af öðru og yngri kynslóðin hefur verið óþreytandi við að finna upp á skemmtilegum hlutum til að gera og ríkir nokkurs konar kvöldvökustemning. Það geta þó ekki allir tekið þátt, stundum er einhver einfaldlega of slappur til að treysta sér að vera með og Lilja fær ekki að vera með vegna þess að við viljum ekki að hún smitist af því að hún er að hugsa um okkur og elda handa okkur. 

Við höfum ekki farið út í það að ætla okkur að gera neitt. Það er bara verið að jafna sig á veikindum. Það er ekki verið að taka til í skápum eða breyta og bæta. Það er einfaldlega bara verið að „hygge sig“, borða og spjalla. Horfa á þætti og tiktok er líka vinsælt. 

Hemmi fær ómældan tölvutíma sem honum finnst nú ekki leiðinlegt.

Heimilisfaðirinn Sigurður Ingi Einarsson gaf út eftirfarandi heilsufarsskýrslu

Heilsufarsskýrsla gærdagsins

Heimilisfaðirinn Sigurður Ingi Einarsson gaf út eftirfarandi heilsufarsskýrslu af heimilisfólkinu í gær.

Nýjustu fréttir af covid-19 sjúklingunum í aldursröð:

Siggi: hitalaus þennan morguninn en frekar sjúskaður og slappur.
Arnar: tæpur í maganum, hitalaus og hress.
Sunneva: þreytt, fékk hita í gær og frekar slöpp.
Benóný: hefur verið undir sérstöku eftirliti vegna slæmra hóstakasta þar sem hann stendur á öndinni, nær ekki að anda og blánar upp. Í fyrstu var hann að fá 9 slík köst á dag en er kominn niður í 3. Er hitalaus.
Harpa: slöpp, með hita öðru hvoru og mæðin.
Hemmi: allur að hressast, slappur í maganum með sérstakan þurran hósta.

Bræðurnir eru komnir með öndunaræfingar til að styrkja lungun. Það er mjög vel haldið utan um alla af hálfu spítalans og má hrósa þeim fyrir gott og öflugt eftirlit.
Lilja rekur mötuneyti og sér til þess að allir nærist og er hún ennþá ósmituð þessi elska.

Fylgst vel með þeim

Spítalinn hefur haldið mjög vel utan um okkur. Við höfum úrval símanúmera til að hringja í ef eitthvað kemur upp á, eitt fyrir yngra en átján ára og annað fyrir eldra fólkið. Barnaspítalinn fylgist vel með og skrifaði upp á lyf fyrir Benóný til að minnka hóstaköstin. Læknirinn hikaði þó svolítið og sagðist þurfa að reikna aðeins þegar hann spurði um hæð og þyngd hjá Benóný, 207cm og 106 kíló eru tölur sem barnalæknir á barnaspítalanum er ekki vanur að eiga við þegar kemur að skammtastærðum á lyfjum. 

Sunneva hefur fengið símtöl frá næringarfræðingi og ljósmóður ásamt lækni og eftirlitsaðilum þannig að við getum ekki kvartað undan neinu, bara dreift hrósi á þetta fólk sem er orðið eins konar símavinir okkar. 

Við eigum líka góða að sem hafa komið með varning til okkar ásamt því að hafa pantað hjá netverslunum. 

Lilja fór einnig í sýnatöku og reyndist neikvæð, sú eina í fjölskyldunni. Ekki var það tekið út með sældinni að fara í sýnatöku eins og myndin sýnir

Í gær voru komnir 7 dagar og alla vega 7 dagar eftir. Lilja sefur í sérherbergi, er með sprittflösku fasta við sig og sprittar sig í tíma og ótíma. Hún minnir alla á tveggja metra regluna og tekur sveig framhjá öðrum heimilismeðlimum. Hún hefur aldrei fengið að hafa fjarstýringuna á sjónvarpið sem loksins virðist vera að bjarga henni frá öllu illu ásamt því að hjónin deila ekki baðvaski heldur eiga sinn hvorn fyrir sig. 

Þessi atriði ásamt því að hún er Skaftfellingur virðist vera að bjarga henni frá Covid-19. 

Myndir: úr einkasafni