Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra úthlutaði í gær tæpum 90 milljónum króna úr lýðheilsusjóði til fjölbreyttra verkefna og rannsókna um allt land. Alls hlutu styrki 172 verkefni á sviði geðræktar næringar, hreyfingar, tannverndar og áfengis- vímu- og tóbaksvarna.
Auglýst var sérstaklega eftir verkefnum sem varða geðheilsu, geðrækt, heilbrigt mataræði, svefn, hreyfingu og kynheilbrigði og verkefni sem stuðla að auknum heilsufarslegum jöfnuði í þágu minnihlutahópa eða milli kynjanna. Við ákvörðun um úthlutun var einnig tekið mið af lýðheilsustefnu og aðgerðum sem stuðla að heilsueflandi samfélagi, stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 og stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til 2020.
Fjármunir sem margfaldast að verðgildi
Athöfin hófst með ávarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, Kristín Heimisdóttir formaður Lýðheilsusjóðs flutti ávarp og Bryndís Jóna Jónsdóttir frá Núvitundarsetrinu sagði frá verkefnunum sem hlotið hafa styrk úr lýðheilsusjóði og snúa að innleiðingu og þróun núvitundar í skólastarfi. Í máli ræðumanna var samhljómur um gildi lýðheilsusjóðs og þeirra fjölmörgu verkefna sem hlotið hafa framlög úr honum á liðnum árum. Fjármununum væri vel varið enda skilaði fjárfesting í lýðheilsu sér margfalt til baka.
Hæstu styrkina, þrjár milljónir króna, hlutu Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefni sem snýr að þverfaglegri snemmtækri íhlutun í málefnum barna, FRÆ, félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu fyrir verkefnið Þekking í þágu forvarna 2019 og Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands fyrir verkefni um landskönnun á mataræði og eiturefnagreiningu.
Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hlaut 2,25 milljónir króna fyrir almennisíþróttaverkefnið Lífshlaup og Hjólað í vinnuna, Arnarsson hlaut 2,5 milljónir kr. fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknum á heilsu og líðan unglinga og Rannsóknir og greining fengu 2,5 milljónir króna fyrir rannsóknarverkefnið Er allt að fara til fjandans?
Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð Embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust.