Hríseyjar- og Grímseyjarskóli hafa unnið að sameiginlegu þróunarverkefni „Leiðtogar í eigin námi“ síðan 2016. Út frá þessu verkefni kviknaði hugmyndin að halda svokallaðar Sudbury vikur í skólunum sem er í anda Sudbury Valley School í Bandaríkjunum en eftir þeirri hugmyndafræði er unnið í rúmlega 60 skólum víðsvegar um heiminn.

Samkvæmt þeirri hugmyndafræði skipuleggja nemendur sitt eigið nám út frá sínum áhugamálum í eina viku, setja upp stundarskrá sem þau tengja við lykilhæfni aðalnámskrár. Þau þurfa einnig að finna leiðir til að leysa viðfangsefnin sem þeir völdu, taka lýðræðislegar ákvarðanir í félagi við starfsmenn skólanna og vinna á sínum forsendum.

Núna stendur yfir fjórða Sudbury vikan og eru nemendur Grímseyjarskóla í Hrísey að þessu sinni og taka þátt í vikunni. Það sem er öðruvísi við þessa viku er að nú er henni skipt upp með helgi þ.e. tveir dagar í síðustu viku og þrír í þessari einnig máttu nemendur á unglingastigi mæta seinna á morgnana eða á milli 08.00 og 10.00 og vera þá lengur á daginn en enginn hefur nýtt sér þann kost.

Hér má sjá ýmis verkefni sem unnið er að í yfirstandandi Sudbury viku í skólanum. Búið er að tjalda á sal skólans og hýsir tjaldið slímverksmiðju og verslun, nuddstofa er upp á efri hæðinni, stúdíó í einni stofunni og heilmikil listsköpun í handmenntastofunni.  Frábært að sjá hvað krakkarnir eru að njóta sín og gera frábæra hluti.

 

Frétt: Hrísey.is