Guðrún Helga Sigmarsdóttir, stendur ein í þungum þönkum á Ráðhústorginu, nánar tiltekið við styttuna frægu þar sem Gústi Guðsmaður stóð á hennar barnæsku árum og öskraði kristilegan boðskap yfir bæjarbúa og deildi út Jesús myndum til barna sem þorðu að nálgast hann.

Guðrún eða Gurrý eins og hún oftast var kölluð er nýorðin 85 ára gömul ekkja. Hún er læknir á eftirlaunum og fyrrverandi frægur sérfræðingur í beinþynningar sjúkdómum. Gurrý hafði fengið góða afmælisgjöf frá börnum og barnabörnum, gistingu með öllu á Sigló hótel, flug til og frá Akureyri og bílaleigubíll beið hennar og flutti hana ókeypis heim á Sigló.

Þegar hún lagði bílnum við hótelið fannst henni eins og að hún væri að ganga inn í lúxus útgáfu af gamla Sunnu síldarbrakkanum fræga og eftir góða máltíð, fer hún að Googla ýmislegt um sögu Siglufjarðar og þá sérstaklega varðandi umhverfið í kringum Ráðhústorgið.

Hún datt þá óvart inn í grein sem brottfluttur Siglfirðingur skrifaði á bæjarfréttasíðunni trölli.is og myndskreytti með gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Hún horfði vel og lengi á gamla húsa ljósmynd og sofnaði tárvot, en ákveðin í að gera upp sárar, jafnt sem góðar minningar á morgun.

Núna stendur hún við hliðina á Gústa Guðsmanns styttunni og starir í sterkum minningum á hús, sem er ekki lengur til og hún sér samtímis fyrir sér brothætta bróður sinn og hans útsýni úr hornglugganum á Gamla Kaupfélagshúsinu.

Brothætti litli bróðir minn

Gurrý settist á bekk við hliðina á Gústa og tekur fram dagbók sem bróðir hennar hafði skrifað og teiknað í myndir um allt mögulegt sem hann sá út um alheimsgluggann í sinni rúmlega 15 ára löngu einangrun, þar sem hann horfði með löngunar augum, á aðra lifa lífinu og hún dróst inn i sárar og merkilegar minningar um sjúkdóminn sem gerði hana að lækni.

Hún var á tíunda ári þegar að langþráður bróðir hennar fæddist inn í hennar ljúfa og saklausa einbirnis heim, en faðir hennar og móðir höfðu lengi reynt að eignast annað barn. Gurrý minntist yndislegra barnæsku ára í kjallaraíbúðarholu við Vetrarbrautina, sem lyktaði eins og kartöflukjallari. Það tók hana bara tvær mínútur að hlaupa yfir á Barnaskólabalann í leiki með öðrum Þormmóðseyrarbörnum. Faðir hennar hafði ekki heldur langt í sína SR-verksmiðju vaktavinnu og móðirin var þekkt og dugleg saumakona og hvarf aðeins heiman frá í síldarsöltun yfir hásumartímann.

Elskulegur bróðir kom óvænt eins og skemmtileg lifandi dúkka inn í hennar smástelpu líf, en fljótlega kom í ljós að hann var ekki eins og önnur kornabörn, sem hún þekkti úr nágrenninu. Hann var vissulega svaka sætur og krúttlegur glókollur með skærblá augu, en það skrítna var að augna hvítan var líka með bláan tón.

Drengurinn var snemma mjög svo óvær og grét mikið, var viðkvæmur í lungunum, með tilheyrandi hósta og hori. Það gerðist einnig tvisvar, að þegar móðir hans stakk höndunum undir litla handarkrika, við að taka hann úr vöggu og í fangið, að þá fór hann úr axlarlið.

Móðirin var tíður gestur á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og læknum tókst ekki að finna á þessu nokkra læknisfræðilegar útskýringar. Þegar hann byrjaði að skríða, brotnuðu á honum fingur og tær og seinna þegar okkar manneskjulega þörf kom yfir hann, við að reyna að standa uppréttur og ganga, var eins og að fæturnir bognuðu undir blessuðu barninu og varð hann þar af snemma mjög svo hjólbeinóttur og líktist göngulagið mest gömlum hestabónda. Í þessum barnalegu tilþrifum sínum við það eitt að reyna að ganga, datt hann oft og það kostaði hann bæði handleggs og handliðsbrot, með tilheyrandi gifsumbúðum.

Gurrý minntist þess með hryllingi að hún og móðir hennar tipluðu á tánum kringum galsann í andlega heilbrigðum brothættum óvita og einnig að um tíma fóru ljótar kjaftasögur um bæinn um að móðirin misþyrmdi drengnum sínum. Flestir tóku ekki undir þetta slúður, vitandi að móðirin var gegnum góð kona og vorkenndu henni frekar á þessum erfiðu tímum.

Gurrý minntist þess að hún fór með hann 1 árs gamlan út í garð, á ljúfum Sigló logn sumardegi, í kerru þar sem hann var skorðaður niður með beisli og koddum. Það hafði verið frekar blautt og hlýt vor á Eyrinni og margar mýflugur spruttu nú upp úr pollum og mýrarflákum. Blessaður drengurinn fékk bit á handarbakið og ofnæmis viðbrögðin urðu það kröftug að hann dó næstum því af þessu eina litla biti. Eftir þetta þorði hvorki hún eða móðir hennar að fara út með drenginn.

Það kom einnig í ljós seinna að hann þoldi illa kalt loft og drengurinn fékk þá oft áköf asma köst og stundum hóstaði hann hreinlega sundur sín eigin rifbein. Heimsóknir og leikir með öðrum börnum voru einnig útilokaðir, því ofnæmiskerfið var svo lélegt að venjulegt barnakvef, gat hreinlega dregið hann til dauða.

Ólæknandi sjúkdómur

Drengurinn var að verða tveggja ára gamall, þegar að sunnlenskir læknasérfræðingar komumst loksins að þeirri niðurstöðu að hann væri fæddur með alvarlegan beinþynningar sjúkdóm sem heitir: Osteogenesis imperfecta (OI) og honum geta fylgt ýmsir aukakvillar.

Bogin bein og gömul gróin beinbrot.

Fjölskyldan fékk ráðið að halda barninu að mestu leyti rúmliggjandi og innandyra og að mikilvægt væri að þau kæmust í betra húsnæði, lengra í burtu frá óhollum verksmiðju reykháfum og gjarnan í íbúð á þriðju eða fjórðu hæð, þar sem ofnæmis valdandi flugur sjást sjaldan. Bent var á að mikilvægt sé að drengurinn fái góða dagsbirtu og gott sumarloft í gegnum stóra opna glugga og einnig að hann fengi í sig aukaskammt af D og A vítamíni.

Gurrý, beinþynningar sérfræðingur veit mikið vel að í dag eru til bæði skurðaðgerðar lausnir sem rétta upp bogin bein og lyf sem styrkja þessi brothættu bein. Hún sér einnig fyrir sér tíðarandann, sem ræður ríkjum þegar þessi læknisfræðilegu ráð eru gefinn og að hún sem og móðir hennar, í umhyggjusamri velvild og hræðslu við að missa blessað barnið frá sér, sköpuðu þetta of verndaða, ófrjálsa og einangraða líf sem bróðir hennar var tilneyddur að lifa.

Góðhjartaðir fangaverðir!

Í litlum og samheldnum bæjarfélögum eru allir boðnir og tilbúnir að leggja hönd á plóg til að gefa þessum langveika dreng einhverskonar mannsæmandi líf, en elskulegur Kaupfélagsstjóri bauð fjölskyldunni að leigja þriðju hæðina í Gamla Kaupfélagshúsinu fyrir lítinn pening.

Þannig byrjaði hans einangraða líf, þar sem við öll urðum hans „góðhjörtuðu fangaverðir„, hugsaði Gurrý.

Þarna hafði hann gott útsýni í hjarta síldarbæjarins mikla. Úr norður hluta hornherbergis gluggans sá hann upp í Hvanneyrarskál og náði að upplifa ártalið birtast þar 1957 og svo gat hann séð fjarðarkjaftinn og hluta af Siglunesi þegar hann horfði norður Túngötuna.

Best af öllu var að sjá iðandi mannlífið á Aðalgötunni og við Ráðhústorgið, jólatré og krakka á sparksleðum. Án mikillar áreynslu gat hann einnig séð í suðurátt, Hólshyrnuna fallegu, skipta um árstíðarkjóla og jafnvel norðurljós dansa yfir Skollaskál. Hann sá bæinn sinn byggjast og breytast, krakka fara í rútu í sumarleikskóla suðrá fjörð….og á sínum örfáu unglingsárum, líf og ástir annarra verða til í miðnætursólinni, eftir böll og bíósýningar…

…. Samtímis greip hann örugglega oft áköf og sár sorg yfir því að geta ekki tekið þátt í lífinu og skapað sína eigin framtíð í samspili við jafnaldra sína, þessi löngun sést líka vel í dagbókar teikningunum hans, hugsaði Gurrý stóra systir, döpur í huga.

En við vissum ekki betur og gerðum okkar besta…

… Já, það er makalaust hvað það býr mikil ást og umhyggja í þessum bæ, þegar eitthvað bjátar á, segir Gurrý gamla upphátt við sjálfa sig, með tárfylld augu. Þegar hún hugsar til baka um þessi 15 ár, sem bróðir hennar náði þó að lifa.

Oft bárust þeim að vori gjafir frá æðarvarps bændum á Siglunesi, inní Héðinsfirði og úr Fljótum. Pokar fullir af hágæða æðardún sem fóru í sængur og kodda handa þessum brothætta dreng, sem gat jafnvel handleggsbrotnað í svefni ef hann lagðist með fullum þunga á sína eigin útlimi..

Góður kíkir á þrífót kom úr söfnun barnaskólakrakka, eftir það gat hann séð… stundum of mikið.
Prentsmiðjustjórinn kom reglulega og gaf honum nýjustu hasarblöðin og nýprentaðar Tarzan bækur o.fl. Í bókum og í sínum eigin ímyndaða heimi og dúnmjúkum draumum var hann í ýmsum ævintýra hlutverkum, sem hann aldrei gat upplifað í raunheimi.

Meðan að þær mæðgurnar sáu um að sauma kodda og sængur og annast um MJÚKU hliðina á tilveru drengsins, var faðirinn mikið í því að smíða herbergis mublur og finna tæknilegar lausnir, með aðstoð frá góðum vini sínum, sem var útvarpsvirki og samtímis kvikmynda sýningarmaður í Nýja Bíó. Þeir vinirnir voru duglegir við að útvega allskyns tæknilega hluti, sem léttu lund og gerðu einangrað líf léttara.

Gurrý minntist þess t.d. hvað henni þótti vænt um þegar að pabba vinurinn elskulegi setti upp innanhúss símakerfi í öll herbergi svo að drengurinn gæti auðveldlega kallað eftir hjálp, dag sem langar nætur. Eitt sumarið var sett upp svona innanhús talsímabox með þráð út um gluggann hjá honum. Jafnaldrar hans gátu þá spjallað við hann frá götuhorninu. Því miður þoldi þetta tæki illa veður og vind og það var of dýrt að endurnýja þetta samskiptatæki.

Svo kom það sér vel fyrir Gurrý sjálfa á unglingsárum, að útvarpsvirkinn og vinir hans frá Loftskeytastöð Siglufjarðar klifruðu saman upp á þak og settu upp stórt og mikið loftnet og gat þá drengurinn hlustað á útlenskar útvarpsstöðvar á lang bylgjunni, eins og t.d. Radio Luxenburg.

Hjólböru bíó og Spútnik!

Þannig liðu einangruð árin með sama smábreytilega útsýninu…

Þegar drengurinn komst til vits og ára var sumardagurinn fyrsti hans stærsti sæludagur, en þá að kveldi til fór pabbi hans í góðri samvinnu með Nýja Bíós sýningarmanninum og náðu þeir í stórar hjólbörur hjá SR verksmiðjunni. Síðan var sett á hann skurðlækna munngríma og honum pakkað vel inn í dúnsængur og kodda, borin varlega niður þrjár hæðir og þar á eftir var honum einfaldlega keyrt inn í tóman stóra bíósalinn.

Það var gömul hefð hjá eiganda kvikmyndahússins að öllum börnum bæjarins var boðið í ókeypis bíó á sumardaginn fyrsta. Hér kom ekki til greina að skilja einn veikan dreng eftir í Gamla Kaupfélagshúsinu.

Árlega klippti sýningarmaðurinn góðhjartaði saman allskyns teiknimyndir, blandað með Chaplin klippum og fl. Úr þessum kvikmynda hrærigraut varð rúmlega tveggja tíma barnaskemmtun. Drengurinn hló svo mikið að þetta kostaði hann mikinn asma hósta og aum rifbein.

Gurrý gamla minntist þess einnig með bros á vör, að þegar að Kommúnistafélag Siglufjarðar frétti af þessum leyni bíó ferðum bróður hennar að þá vildu þeir ólmir einnig bjóða honum í ókeypis 1 maí krakka bíó í Kommahöllinni sinni, nokkrum húsum sunnan við Kaupfélagshúsið.
Drengurinn hafði séð aðeins í framhliðina á þessari svokölluðu höll, með því að setja rakspegil pabba síns á kústskaft og stinga því síðan varlega út um gluggann.

Faðir hennar var svona rétt mátulega hrifin af þessari hugmynd og afsakaði sig með að það væri of mikil smit áhætta fyrir drenginn að fara of oft út úr húsi. Kommarnir elskulegu gáfu sig ekki og buðust til að koma með sýningarvélina og tjald heim í hús og svo varð úr þessu hefð til nokkurrar ára.

Vélin var sett upp fram í gangi og tjaldið þakti vel fyrir austur útsýnisgluggann. Hún mundi vel að bróður hennar fannst Sovét teikninmyndir og áróðurs glansmyndir af öllu þessu stóru og fína í Rússlandi, rétt svona mátulega skemmtilegt, en 1 maí 1958 fékk hann að sjá áhugaverða fræðslumynd um Spútnik gervihnöttinn sem Sovétmenn skutu upp 4 október 1957.

Dagbók fangans!

Gurrý gamla dregst nú inn í minningar um daginn sem hún fann þessa myndskreyttu dagbók bróður sín, en það var í sambandi við undirbúning fyrir kistulagninguna nokkrum dögum eftir að hann lést í svefni, þá nýorðin 15 ára. Hún sjálf var þá 26 ára læknisfræðinemi í sumarvinnu 1962 sem síldarstúlka heima á Sigló. Hún fann bókina vel falda inn í uppáhalds dúnkoddanum hans, sem aldrei mátti þvo eða viðra.

Hún las bókina í leyni því hún vildi ekki að foreldrar sínir fengu að sjá leyndar táninga hugsanir bróður síns elskulega. Gurrý hló af fyrstu barnalegu köflunum, þar sem hún og mamma hennar eru kallaðar bæði „elskulegir fangaverðir mínir og þjónustupíur…“

Svo sér hún að hann á sínum gelgju árum verður þungur í huga, orðum og teikningum. Mannleg nálægðar löngun kemur fram í hálf klámfengnum vísum og teikningum, samt sér hún þetta meira sem eðlilega þrá eftir að fá að kyssast og faðmast, líkt og ungmenna pörin sem hann sá í kíkinum sínum, þegar þau læddust með unga ást sína í skúmaskotum kringum Ráðhústorgið.

Á síðustu blaðsíðum bókarinnar sér hún að þunglyndi, biturð og kaldhæðni hefur tekið yfir huga hans og Gurrý sá svo eftir því að hafa ekki gefið sér tíma frá ákafri síldarsöltunar vinnu í að tala við hann í einlægni.

Hún áttaði sig á því í sínum systkina kærleik, að þrátt fyrir að hann alltaf brosti fallega til hennar, þegar hún kíkti á hlaupum inn til hans og sagði stuttar síldveiði fréttir og bullaði eitthvað bryggjuslúður, þá vantaði einhverskonar líf og innilegheit í augnabrosið hans bláa.

Það var eins og það væri vetrarmyrkur í huga hans um hásumar.

Tunglið, tunglið taktu mig…

… og berðu mig upp til skýja.

Gurrý sá að hann hafði kaldhæðnislega breytt þessu fallega ljóði í einhverskonar dauða ósk með orðunum:

Mýfluga, mýfluga taktu mig
og berðu mig upp til skýja,
hugurinn minn er farin hálfa leið
í heimana nýja…
… Í HEIMANA NÝJA

Endurtekningin er yfirstrikuð tók Gurrý eftir, en svo kemur lokaversið í enn þá þyngri ósk um skjótan dauða:

Komdu litla flugu- lipurtá,
langi þig að heyra
hvað mig dreymdi, hvað ég sá
og kannski sitthvað fleira.
Ljáðu mér eyra…
Bíttu mig í eyrað!

Sárast fannst Gurrý þó, að finna stuttan lista yfir kosti og galla við ýmsar sjálfsmorðs aðferðir, sem hann taldi sig geta eða ekki geta framkvæmt:

Hengja sig:
nei, get líklega ekki klifrað upp á stól.

Kasta sér út um guggann…
Spurning: Er þetta nægileg fallhæð frá þriðju hæðinni til að drepast örugglega?

og svo bætir hann við:
Nei, og ekki vill ég gera fjölskyldu minni eða bæjarbúum þann óleik að finna mig mölbrotinn og blóðugan fyrir framan Kaupfélagið

Fjölskyldan hafði fengið þær fréttir frá sumarafleysinga sjúkrahús lækninum að drengurinn hefði líklega kafnað eftir kröftugt asma kast, en mögulegt væri einnig að um sé að ræða skyndileg ofnæmisviðbrögð og vísaði læknirinn þá í sjáanlegar bólgur á hálsi.

Gurrý er samt full af efasemdum hvort honum hafi orðið að ósk sinni með mýflugu heimsóknina, en hún var sjálf að vinna þessa nótt í síldarsöltun á Njarðarplaninu, sunnarlega í innri höfninni.

Hún minntist þess vel að um miðnætti þegar hún kófsveitt í sumarhitanum gaf sér tíma til að líta upp úr tunnu og þurrkaði af sér svita, tók hún eftir því að það var skollið á Siglfirskt galdralogn og hún sá einnig mýflugu ský svífa yfir pollunum á Leirutanganum sunnar í firðinum.

Getur það verið að ein eða tvær flugur hafi ná því að berast með mildum sunnanblæ inn um gluggann hjá honum á þriðju hæð.

Brothættur uppgefin drengur og dauðaóskin hans

Hann lá fljótandi og dottaði í mjúku dúnkodda hafi, móðir hans hafði kíkt við og kysst hann góða nótt og lokað glugganum, þó án þess að spenna hespuna fasta. Honum var svo heitt í sumarlogninu að hann tók spegla kústskaftið sitt og ýtti í gluggakarminn og opnaði upp á gátt.

Því honum hafði ætíð líkað að heyra hróp og köll af síldarplönunum í nágrenninu og í svona nætur logni heyrðist líka í fólki sem talaði saman í hálfu hljóði við Ráðhústorgið.

Allt í einu finnur hann að eitthvað stakk hann í barkakýlið og hann slær ósjálfrátt sjálfan sig yfir hálsinn, og sér síðan skelkaður að það er dauð mýfluga föst á vísifingrinum. Ofnæmisviðbrögðin gerðu strax vart við sig og hann kom vart upp hljóði, en hann hefði léttilega getað teygt sig í takkann á innanhússsíma dósinni við rúmið og stunið upp hjálparbeðni inn í svefnherbergi foreldra sinna, en hann lét það eiga sig.

Hann horfði á klessta mýfluguna á fingrinum og honum fannst hún líkjast litlum álfa engli, sem var komin til að sækja hann…
… og bera hann upp til skýja!

Kveðjustund fyrir langveikan dreng í glugga

Í síldarhöfuðborg heimsins er það ekki vinsælt að fólk yfirgefi síldarplön sem sligast af dagsferskri síld, til þess eins að skreppa í jarðarför, en síldarkóngum og verksmiðjuforstjórum bæjarins var það ljóst að í þessari miklu sorg, myndi NEI einungis leiða til reiði og jarðarfara verkfalls.

Því bæjarbúar á öllum aldri vildu kveðja þennan ljúfa dreng sem fáir höfðu hitt, en ALLIR höfðu samt vinkað til hans, í meira en áratug, þegar fólk sá til hans í Gamla Kaupfélagsglugganum.

Allir vissu um hans erfiða sjúkdóm og fólk flykktist af síldarplönum í vinnufötunum og stillti sér upp beggja megin við brekkuna sem leiddi kistuna þessa stuttu sikksakk leið heiman frá Gamla Kaupfélagshúsinu og upp í kirkjuna stóru og fallegu sem stendur beint fyrir ofan Aðalgötu heimsins.

Fólk streymir til kirkju. Myndin er tekin úr kirkjuturninum af Kristfinni Guðjónssyni.

Tárin runnu niður kinnarnar á Gurrý þegar hún horfði í huganum á þessa fallegu og táknrænu kveðju sem bæjarbúar sendu bróður hennar þennan sólríka og fallega jarðarfarar sumardag. Hún stóð upp og kvaddi Gústa Guðsmann með því að klappa styttunni vinalega á öxlina.

Síðan stakk hún dagbókinni í kápu vasann og lagði af stað upp í kirkjugarð, í þetta skiptið gat hún gengi nokkuð beina leið upp tröppur að kirkjunni og þaðan stuttan spöl upp Kirkjustíg. Hún var fljót að finna leiði bróður síns og foreldra, þrátt fyrir að það voru yfir þrjátíu ár síðan hún var þarna síðast. Gurrý hafði þó alla tíð borgað fyrir að láta hirða vel um hinsta hvíldarstað sinna ástkæru ættingja.

Í þetta skiptið ætlaði hún að sinna þessu smástund sjálf og hún fann þarna við kirkjugarðs hliðið litla skóflu og hrifu. Eftir að hún hafði hreinsað arfa, gróf hún upp blóm á miðju leiði bróður síns og gerði þar nokkuð djúpa holu og þar lagði hún dagbókina með öllum sínum leyndarmálum sem í henni voru.

Orð, hugsanir og teikningar voru nú hjá þeim unga manni sem náði því aldrei að eignast eigið einkalíf eða láta drauma sína rætast.

Þessi hræðilegi líkamlegi sjúkdómur braut ekki bara bein, heldur einnig að lokum í honum sjálfan lífsviljann, en margir Íslendingar með beinþynningar vandamál eiga honum samt mikið að þakka. Því Guðrún Helga Sigmarsdóttir, betur þekkt sem Gurrý beinalæknir, fór hans vegna í langt og strangt sérfæðinám, sem svo sannarlega kom öðrum að notum í áratugi.


Gurrý gamla kvaddi grafirnar þrjár, vitandi að langveiki bróðir hennar elskulegi, svaf svefninum langa við hlið foreldra sinna í mjúkri æðadúns klæddri kistu. Þarna hafði hann líka betra útsýni yfir allan fjörðinn sinn fagra, í þessum bratta fjallshlíðar kirkjugarði.

Nú er þessu sorgarfeli endanlega lokið frá minni hlið og engum verður sagt frá innihaldinu í dagbókinni héðan af.

Best að ég drífi mig niður í bæ og svo byrja ég á því að kaupa mér kaffi og hunangsköku í Aðalbakaríinu góða og svo verð ég hreinlega venjulegur túristi í mínum eigin fæðingarbæ, það sem eftir er ferðalagsins.


P.s. Höfundi hefur lengi langað til að skrifa smásögu um einangraðan einstakling sem getur ekki / fær ekki, að taka þátt í lífinu og neyðist til að horfa á líf og ástir annarra vaxa og dafna út um glugga. Þessi merkilegi horngluggi og útsýni úr hans staðsetningu í hjarta Siglufjarðar, er mér persónulega mjög svo eftirminnilegur og kær, því ég og fyrrverandi sambýliskona og barnsmóðir mín, byrjuðum okkar sambúð í þessari íbúð á þriðju hæðinni í gamla horfna Kaupfélagshúsinu.


Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmyndin er framleidd með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.

Aðrar myndir eru birtar með leyfi frá eigendum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Vitnað er í ýmsar heimildir í gegnum vefslóðir í sögunni.