Þegar við komumst til vits og ára og verðum eldri, reyndari og greindari, held ég að okkur öllum beri skylda til að gera upp hug okkar varðandi hvort að við meðvitað eða ómeðvitað tókum þátt í einelti. Við verðum að vilja muna sumt sem okkur finnst óþægilegt. Ég minnist þess t.d. að á árgangs mótum eða í sambandi við að gamlir íþrótta félagar hittast, getur oft komið upp umræða um af hverju sumir láta aldrei sjá sig. Umræðu vina hópurinn lækkar ósjálfrátt tóninn og svo hvíslar einhver: Tja… það er kannski ekki svo skrítið, við vorum nú ekki alltaf svo góð við hann/hana, en svo er þetta yfirleitt ekki rætt til hlítar.
Því þetta eru svo óþægilegar minningar og við viljum helst ekki muna svona hluti og þeim er þá aftur og aftur hreinlega ýtt inn í falið skúmaskot í huga okkar. Upp koma minningar og efasemdir um hvort að maður var sjálfur drífandi kraftur í t.d. til sýnis harmlausum „galsaleik“ sem fór úr böndum og breyttist í viðbjóðslegan eineltis atburð og niðurlægingu fyrir framan skólafélagana, eða sveik ég vin minn, sem varð fyrir barðinu á þessu, með því að standa hjá og samviskubit mitt, liggur þá í að ég kom honum ekki til varnar.
Hvor hliðin á þessu er verri?
Niðurlægins ofbeldið eða vinasvikin?

Hvað er einelti?
Einelti er þegar einstaklingur verður endurtekið og yfir langan tíma fyrir neikvæðu, meiðandi eða niðrandi hegðun frá öðrum. Slík hegðun getur verið líkamleg, andleg, munnleg eða félagsleg og hefur oft alvarleg áhrif á líðan, sjálfsmynd og lífsgæði þeirra sem verða fyrir eineltinu. Einelti getur átt sér stað í skóla, á vinnustað, á netinu eða annars staðar í samfélaginu og snýr ekki eingöngu að börnum – fullorðnir geta líka orðið fyrir einelti.
Helstu afbrigði eineltis:
- Líkamlegt einelti:
Sparkar, hrindir, meiðir líkamlega eða eyðileggur eigur. - Munnlegt einelti:
Stríðni, niðrandi athugasemdir, baktal, ærumeiðingar eða hótar. - Félagslegt einelti:
Útilokun úr hóp, dreifa slúðri, snúa öðrum gegn viðkomandi. - Andlegt einelti:
Hóta, stjórna, ræna viðkomandi sjálfstrausti eða valdi með óbeinum hætti. - Net-einelti (netáreiti):
Meiðandi skilaboð, hatursskilaboð, falskar sögur, myndbirtingar eða útskúfun á samfélagsmiðlum. - Einelti á vinnustað:
Kerfisbundið niðurlægjandi eða útilokandi hegðun af hálfu samstarfsmanna eða yfirmanna, s.s. útilokun frá upplýsingum, stöðug gagnrýni, baktal eða að vera látinn vinna óviðunandi verkefni. - Einelti meðal fullorðinna:
Getur átt sér stað í fjölskyldum, samböndum, félagasamtökum eða samfélaginu almennt – birtist sem stjórnsemi, óvirðing, niðurlæging eða aðhald sem ræðst að persónuleika einstaklings.
ATH. (Yfirlit yfir grunn einkenni eineltis, er tekið saman með hjálp frá ChatCPG. )
Tíðarandinn var annar og við vorum ung og vitlaus og vissum ekki betur!

Svona orðum er oft fleygt fram, þegar við viljum afsaka okkur, þá svo sjaldan sem gamlar eineltis minningar eru ræddar, en þetta er samt einhverskonar afneitun og engan vegin rétt leið til að ná sáttum við sjálfan sig og aðra. Sannleikurinn verður alltaf að liggja í upplifun og túlkun þeirra sem urðu fyrir áreitinu og sumir atburðir geta setið svo ótrúlega djúpt og gefið alsaklausum fórnarlömbum eineltis, ólæknandi og ævilanga sála-marbletti.
Þess vegna skulum við muna að það er aldrei of seint að reyna að hlusta og taka til sín sinn eigin hlut í eineltisatburðum og biðjast fyrirgefningar og gildir það jafnt um atburði þar sem þú sjálfur varst virkur þátttakandi eða stóðst stjarfur sem „hlutlaus“ áhorfandi á hliðarlínunni.
Dæmi:
Í barnæsku gat maður átt sér ólíka vinahópa, í leikjum á skólabala Barnaskóla Siglufjarðar og aðra leikja vini í frístundum eftir skóla. Mér fannst t.d. mjög gaman að vera í teygju-tvist með stelpunum, ég var liðugur og gat hoppað hátt, eða svo var ég í skólabala fótbolta með strákunum, þegar veður leyfði. Vinur minn og jafnaldri var í mörg ár tilneyddur til að vera með fótaspelkur og átti þar af erfitt með að taka þátt í mörgum leikjum, eða hvað þá, forðað sér á hlaupum undan eineltis áreiti.
Fyrir nokkrum árum síðan sátum við barnæskuvinirnir heilt kvöld og töluðum í hreinskilni, um margar fyrir hann sárar og erfiðar minningar um heimilisaðstæður, einelti og útskúfun. Við ræddum líka fáránleikann í þeirri ömurlegu smábæjar staðreynd að uppnefnis eineltis orð úr barnæsku pabba hans, gekk í arf og var fært yfir á hann og öll hans systkini eins og einhverskonar eilífðar niðurlægjandi ættarnafn.
Hann tók í þessu spjalli upp atburð, þar sem ég, sem 11 eða 12 ára gamall vinur hans, hafði sært hann og svikið illa, þetta sat djúp í hans sál hálfri öld síðar.
Atburðurinn gerðist á skólabalanum í Barnaskólanum og var hann þá eltur upp af krakkahóp með niðurlægjandi hrópum og köllum, síðan var honum hrint í steinsteypustéttina og hann lá þarna varnarlaus, blóðugur á hnjám og olbogum. Þetta gerðist beint fyrir framan teyjgu-tvist leik sem ég var þátttakandi í. Eftir að hann lýsti þessum minningum fyrir mér, bætir hann við með alvarlegum svip:
Nonni, af hverju hjálpaðir þú mér ekki?
Þú varst yfirleitt oft svo duglegur við að grípa inn í og hjálpa öðrum.
Þessi orð settu mig hljóðan og allt í einu var ég mættur aftur á skólabalan og ég sé mína eigin sök í þessum vinasvikum, nú með fullorðnum 60 ára gömlum huga, um hvað sé rétt og rangt. Ég vissi ekki hvað ég gat eiginlega sagt mér til afsökunar og var að pæla í að segja, eitthvað um að kannski þorði ég ekki að grípa inn eineltið frá akkúrat þessum gaurum, taldi mig ekki á þessum tíma hafa líkamlega burði í þetta og síðan var ég örugglega hræddur um að strákahópurinn myndi þá í staðin snúa sér að mér…
… Ég áttaði mig, guði sé lof, á því að ef ég afsakaði mig með þessum pælingum, myndi ég svíkja hann aftur. Svo ég stóð ósjálfrátt upp og gekk að vini mínum og faðmaði hann lengi og innilega og bað hann að fyrirgefa mér þessi hræðilegu svik. Svei mér þá, ef við ekki báðir feldum sýnileg tár á kinn, í þessu alvarlega uppgjörs augnabliki.
Auðvitað var mér fyrirgefið og okkur varð þessi sáttastund mikill léttir og samtímis gríðarlega mikill áminning um hvað okkar barnæskuvinátta var mikilvæg fyrir okkur báða. Síðan settumst við hlið við hlið og héldumst í hendur, sem tveir miðaldra, hálf munaðarlausir Siglfirðingar í Norska fallega garðinum hans sem stóð í fullum blóma, þetta var minnst sagt fallegur og eftirminnilegur vinafundur.
Strákaofbeldi og karlrembu stjórnsemi byrjar oft snemma!

Við vinirnir héldum síðan ótrauðir áfram að minnast á Siglfirskar eineltis aðferðir sem voru í tísku hér á árunum áður. Strákar eru svo misstórir og allskyns líkamlegt ofbeldi beindist oft að þeim sem minna máttu sín í líkamlegum burðum og stærð. Að fá óvænt spark í rass og læri og slög í axlir og handleggi með tilheyrandi marblettum voru daglegir atburðir.
Í algjörlega fullorðins eftirlitslausum leikfimistímum, var það ekki nægjanlegt að sumir voru alltaf valdir síðastir í lið. Því t.d. „Stikk og Sto“ boltaleikurinn hlýtur að hafa verið fyrir suma pest og pína öll þeirra barnaskólaár. Strákahópar völdu án þess að segja orð, ákveðna viðkvæma einstaklinga sem skotmörk og síðan var boltum stanslaust dúndrað í þá af fullum krafti. Ef fórnarlambið hljóp grátandi inn í búningsklefann, var markmiðinu náð og á hlaupunum þangað dundu yfir hann hlátur og háðsyrði. Ömurlegt að hugsa til þess að hafa tekið þátt í þessum viðbjóði, kannski til þess eins að passa inn í ákveðin hóp, sem taldi sig vinsælan og bestan í öllu. Það lá oft í óskrifuðu loftinu, að ef þú ekki varst með á nótunum, þá varstu sjálfur næstur í röðinni.
Einnig er oft talað um það í endurfundum árgangshópa þegar karlkyns leikfimikennari fylgdi stúlkubörnunum í sturtu og fylgdist með, jafnvel þá fannst börnum undir 13 ára aldri þetta rangt.
Þegar ég sagði vinkonu minni frá innihaldinu í þessum skrifum mínum, hér um daginn, kom hún inn á ömurlegar minningar, sem sitja enn djúpt í henni. Þar minnist hún á bekkjarbræður sína, sérstaklega tvo sem voru alla tíð „Bulli“. Þeir sátu um hana, sérstaklega í gagnfræðaskólanum og beittu bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún minnist þess að hafa verið tekin og tosuð í sundur þar sem trefli var beitt undir hendur og haldið í fætur, síðan var tosað í sitthvora áttina, það var ekki fyrr en nærbuxurnar voru að fara niður að hún æpti „ég er á túr“ að þetta hætti. Eitt sinn kom annar þessi strákur og tróð hendinni í klofið á henni utan á buxunum og þefaði með hæðnissvip og sagði ojjj, fyrir framan alla. Einnig sátu þeir fyrir henni eftir skóla, kaffærðu hana í snjó og hentu skóladótinu í snjóskaflinn. Þetta er bara brot af minningum hennar.
Þrátt fyrir að mikið að þessu færi fram á skólatíma var aldrei skjól frá kennurum, það þýddi ekkert að „klaga“ enda var ekki hlustað.
Eineltið sem var hefð í Barnaskólanum, flutti svo með okkur upp í Gaggó á Hlíðarveginum, en gelgjuára einelti er oftast mun verra, því hér kemur til sögunnar útsmogið andlegt unglinga ofbeldi ofan á það líkamlega. Sérstaklega frá stelpunum og þær saklausu stelpur sem þá þegar voru útilokaðar úr hópnum, urðu nú enn meira félagslega einangraðar.
Það var samt athyglisvert að á Gagnfræðaskóla árunum, að sjá bæði stráka og stelpur fá loksins líkamlega burði í að slá frá sér. Sumir fengu nú að smakka sitt eigið mobbara blóðbragð í eigin munni. Það gagnaðist reyndar samt ekki eineltis fórnarlömbunum sjálfum, sem höfðu neyðst til að halda inni uppsafnaðri reiði frá eineltinu á barnaskólaárunum. Því þegar réttlætis kjaftshöggið kom loksins, þá fékkstu á þig stimpillinn, frá kennurum sem vandræða unglingur, sem vart var hæfur til að ganga Gaggó menntaveginn.
Stelpur eru stelpum verstar!

Ég get vart í orðum lýst því, hversu langræknar, grimmar og útsmognar unglingsstelpur geta verið og þá sérstaklega við aðrar stelpur.
Ekkert er þeim heilagt í að reyna að hefna sín, eða einfaldlega við það að reyna að bola burt vinkonu úr vinahópnum, sem þær sjálfar vilja fá meira útrými í. Hér er oft á tíðum sett í gang ótrúlega flókin áróðurs herferð, þar sem engin takmörk eru fyrir því, hvað sé sé hægt að skapa með lygasögum og hér eru aðrir sjálfum sér og öðrum, einskis illt óskandi, saklausir aðilar dregnir inn í þessa illkvittins eineltis aðferð.
Þær voru einnig mjög afbrigðissamar við stelpur sem þroskuðust fljótt og neyttu allra bragða til að ná sér niðri á þeim.
Ég minnist þess að hafa nokkrum sinnum gengið í þessa viðbjóðslegu eineltis gildru, þar sem kannski 3-4 stelpur notuðu mig og aðra einfalda hormónastýrða stráka, til að ná sínu fram í að niðurlægja kvenkyns „athygli keppinaut“ sinn. Maður var svo vitlaus að maður áttaði sig ekki á því að þær tefldu mér og öðrum fram eins og peðum í þessum óskiljanlega hefndar taflleik. Í leiks lokin, þegar maður oftast fyrir slysni, komst að sannleikanum og ástæðu leiksins, varð manni hreinlega óglatt við tilhugsunina, um að hafa þá bæði „leikið hlutverk“ eineltis gerenda og sagt slæma hluti við alsaklaust fórnarlamb og samtímis orðið fórnarlamb líka, í þessu leikritahandriti sem ég hafði ekki fengið að lesa.
Hér getur manni reynst erfitt að fyrirgefa sjálfum sér barnalega einfeldni og einnig við að reyna eftir á, að útskýra og vænta sér fyrirgefningu frá fórnarlambinu, sem varð fyrir barðinu á þessari óskiljanlegu og mannskemmandi eineltis aðför, frá fólki sem hún taldi vini sína.
Eflaust átti ég oft skilið spark í rassinn fyrir ástarsvik á þessum gelgjuárum, en það hálfa væri samt stundum nægilegt, gæti ég sagt líka.
Útilokun – Börn dregin í dilka!

Þegar við opnum okkar fullorðnu augun og horfum í baksýnisspegillinn með réttlátum og krítískum augum, sjáum við ýmislegt sem erfitt er að réttlæta. Allt var ekki bara fallegt og gott í okkar fagra firði.
Efnahagslegt ójafnræði er þarna og hef ég oft rætt þetta við góða vini og sumir hafa sagt að ég hafi verið heppin í barnæsku með því að vera komin af „góðu fólki.“ Sem hafði efni á að spilla mér, styðja mig og hvetja mig til dáða í skólastarfinu og þátttöku í íþróttum og félagslífi bæjarins. Verja mig þegar ég mætti óréttlæti og setja mér takmörk, þegar ég fór mér að voða við lifa of hratt á unglingsárunum.
Ég er svo innilega meðvitaður að svona barnæska var ekki sjálfgefin fyrir alla og það er sárt að þurfa að segja það, en það var mikið farið í manngreiningarálit hér áður fyrr heima á Sigló.
Í gegnum árinn í óteljandi spjallstundum með vinum á ýmsum aldri, er það þetta með að börn voru sorteruð, eyrnamerkt og dreginn í dilka, strax á fyrsta námsári í barnaskólanum, sem stingur marga í mest í hjartað.
Hér hafa allt of margir spjallvinir mínir því miður notað orðið „kennaraeinelti“ og sagt mér hræðilegar sögur um hvernig þeirra námsvilji var brotinn í spað með skilningsleysi og hreinum persónulegum árásum. Sögð voru ljót orð úr fullorðnum munnum sem brutu niður það litla sjálfstraust sem til var, sem oftar en ekki endaði með angist, skrópi og að lokum lauk oft skólagöngunni án einkunna. Sumir fóru á togara 14 -15 ára, stelpur urðu óléttar og fóru of ungar í sambúð eða svo voru þær sendar í sveit.
Að opinbert skólakerfi hafi verið notað sem einhverskonar óskiljanleg sorteringa maskína, þar sem ekki var gætt neins jafnræðis, varðandi skiptingu í A – B – C bekki. B og þá sérstaklega C bekkurinn var oft kallaður tossabekkurinn.
Sumir vilja meina að hér hafi ráðið leskunnátta og einkunnir, varðandi hvernig raðað var niður í bekki, en samt var það frekar sjaldséð að krakkar voru fluttir upp á við. Maður getur ekki að því gert, að gruna að kannski var þessi skipting gerð, í þeim tilgangi að börn „Betri Borgara“ bæjarins fengu betri námsfrið í sínum fína A – BEKK, frá fyrir fram dæmdum vonlausum börnum alþýðunnar. Sem sagt, hér var ekki tekið tillit til gáfnafars, námshæfileika eða þroska og afleiðingin var að þeir sem höfðu mesta þörf fyrir samfélagslegan stuðning út af heimilisaðstæðum, fengu minnst og þeir sem í rauninni þurftu engan stuðning, fengu mest.
Hér gætu sumir lesendur kannski sagt, já en tíðarandinn var svona, en það eitt og sér hvorki afsakar eða útskýrir upplifun margra vina minna eða fær þá til að líða betur í dag. Þeirra upplifun er þeirra sannleikur!
Það er agalegt að hugsa til þess að t.d. börn sem ALLIR vissu um að þau bjuggu í óhollu fjölskyldu umhverfi með alkóhólisma og andlegu ofbeldi og öllu því óöryggi sem því fylgir, að ekki einu sinni skólagangan gæti veitt þeim smá hvíld, stuðning eða gefið þeim von um að geta menntað sig úr sínum álögum.
Þvert á móti voru þetta oftast börnin, sem lentu í sem mestu einelti og enginn kom þeim til varnar. Nema kannski einstaka góðhjartaður skólafélagi og hans/hennar fjölskylda.
Það var heldur ekki svo óalgengt að ef þú áttir eldri „skólavandræða systkini“ sem höfðu rutt brautina á undan þér í Barnaskólanum eða í Gaggó, varstu fyrir fram dæmdur og hengdur, sem vonlaust námsmannaefni og engin ástæða til að eyða tíma eða pening í svona vandræðagemsa stelpur og stráka.
Sumir hafa þó seinna í lífinu, þrátt fyrir erfiða barnæsku og skólagöngu, skaffað sér bæði eina og jafnvel tvær háskólagráður, en mótlætið og stuðningsleysið tafði mjög svo fyrir ferlinu og kostaði mun meira, samfara barnauppeldi o.fl. en fyrir þá sem voru ákaft studdir í að ganga beinu menntabrautina á réttum aldri.
Minnihluta einelti og net áróður!

Mér hefur oft fundist og verið nokkuð stoltur yfir því að í sögu Siglufjarðar, sé innbyggt umburðarlyndi og skilningur, sem megi rekja til þess tíma þegar síldarævintýrið á síðustu öld dró til sín allra þjóða kvikindi og fólk frá öllum mögulegum landshlutum Íslands. Hér var ekki boðlegt að tala mikið um „VIð“ ekta Siglfirðingar og allir HINIR , sem voru það ekki. Fólk varð að samsas og finna sig einfaldlega í því að búa og vinna daglega með ólíku fólki með alkyns lífsskoðanir og lífstíl.
Kjaftasögur, slúður og bæjarlínan!
Það er einkennilegt að vera á þá þeim aldri að muna eftir og hafa notað „Sveitasímann“ sem sumardrengur inn í Fljótum, þar sem hver sem var gat legið á hleri, en það varð oftast augljóst eftir að maður kvaddi í samtalinu og þóttist þá leggja á að margir óboðnir gestir voru á línunni í þessu svokallaða „einkasamtali,“ maður gat heyrt kannski 10 klik, klik hvert á fætur öðru dágóða stund.
Gamla bæjarlínan á Sigló var oft miðstöð fyrir slúðurfréttir, þar sem línunjósnarar urðu að fylla í eyðurnar þegar samtalsaðilar voru að tala undir rós, en því miður virðist mér þessi bæjarlína vera enn opin í dag, en kannski meira í laumi í duldum netspjallþráðum. Þar sem margt og mikið er sent áfram, orð og innistæðulausar kjaftasögur. Við verðum að muna að þegar að við tökum þátt í þessu bulli að við erum í rauninni að taka þátt í einelti með því að geta í eyður og oja okkur yfir hinu og þessu sem nágrannar okkar eiga að hafa gert eða sagt. Það heitir líka einelti að hefja sjálfan sig upp til skýja, með því að tala illa um og niður til annarra.
Það er minnst sagt hörmung að heyra og sjá umræðu, sem er svo smituð af útlenskum öfgahugmyndum og fake news vitleysu um minnihlutahópa ná fótfestu í Norrænum löndum og heima á Sigló líka. Þar sem sumir halda að það sé nú öllum leyfilegt að segja hvað sem er um hvern sem er á netinu.
Það rignir yfir mann lélegum bröndurum um kynsegin fólk og múslima sem og aðra minnihlutahópa.
Húmor er óspart notaður til að réttlæta áróður og þeir sem þora að benda á það ranga við þessar aðferðir með góðum rökum, fá um leið yfir sig holskeflu af kommentum um að þeir séu húmorslausir hálfvitar og Woke-istar….

En svona fæðast oft fordómar og einelti úr fáfræði og blessuð varnarlaus börnin okkar taka eftir okkar hegðum, því þau gera yfirleitt ekki það sem við segjum þeim, heldur apa meira eftir því sem við gerum.
Við skulum líka muna að börn og unglingar sem verða fyrir einelti í raunheimi, eiga sér í dag hvergi skjól eða griðland, því áreitið fylgir þeim heim og dynur yfir þeim allan sólarhringinn gegnum samfélagsmiðla.
Net-skoðanaskipti fara algjörlega úr böndunum og klofin bær!

Fyrir rétt rúmlega hálfu ári síðan gerðust ákaflega dapurlegir og niðurdrepandi atburðir í okkar annars mjög svo friðsama Siglfirska alheims net samskipta heimi.
Umræður sem snérust upprunalega um með eða á móti STAÐSETTNINGU á verslunarkjarna, fóru algjörlega úr böndunum og þeir sem töldu sig verða undir í umræðunni, gripu þá í rökleysu sinni til klassískra net eineltis aðferða, en það var að snúna vörn í sókn með ákaflega ljótum PERSÓNUÁRÁSUM. Fólk vill oft frekar t.d. skjóta saklausan fjölmiðla boðbera, en að taka við rökum eða koma með málefnaleg og ný eigin rök, en það er orðin lenska að hrópa frekar „FALSFRÉTTIR“ í tíð og ótíma.
Þetta þrátt fyrir að mörgum fannst það einkennilegt að þessi bygginga og staðsetningar tillaga kæmi upp yfir höfðu tekið frá bænum. Þar sem öllum var ljóst að sömu bæjarstjórnaraðilar voru sex mánuðum áður nýbúnir að samþykkja nýtt og stórt deiliskipulag fyrir sama svæði í langvarandi samvinnu við t.d. Vegagerð ríkisins, Rarik o.fl. Svo mörgum fannst það einfaldlega einkennileg stjórnsýsla að þetta leiðinda bygginga málefni kom skyndilega fram, Það er mjög svo óvanalegt að bæjarfélög yfirgefi ný samþykkt deiliskipulag.
Í þessu ferli var bæði ég sjálfur óspurður, sem og margir aðrir sorteraðir í Siglfirskan ruslaflokk sem brottfluttur, af nettröllum sem kunnu sér ekki hóf í kommentakerfum á Fésinu og þessi eineltis orðræða, skapaði mikla sundrung og særindi hjá þeim sem þorðu þó að tjá sig opinberlega. Einhvern veginn varð spurningunni um STAÐSETNINGUNA snúin úr hálsliðnum og upp í að þeir sem voru á móti henni, væru samtímis á móti því að bærinn fengi nýja og nútímalega Kjörbúð.
Það er orðið svo augljóst að nettröllum og ráðríkum fúlum Felix körlum, hefur tekist að fæla fólk frá því að tjá sig eða hvað þá klikka á LIKE af hræðslu við að fá á sig skít og skömm. Við skulum hafa það í huga að í minni bæjarfélögum erum við flest öll skyld og tengd hvort öðru beint og á ská. Hér verðum við að hafa vit fyrir okkur sjálfum og setja okkur mannsæmandi siða og samskiptareglur, því við viljum auðvitað opinberlega alltaf vera besta útgáfan af okkur sjálfum.
Vinnustaða einelti og leynilegir starfslokasamningar o.fl.

Ef við myndum reyna að reikna út hvað einelti kostar samfélagið í beinum peningum, þá erum við líklega að tala um milljarða og ekki milljónir sem fara í leynilega starfslokasamninga. Síðan er ómögulegt að reikna út manneskjulegar þjáningar sem einelti veldur oft ævilangt.
Sá sem verður fyrir langvarandi einelti hvort svo sem það gerist í barnæsku eða á fullorðinsárum, breytist sem persóna. Verður var um sig, dregur sig oft undan og á erfitt með að treysta fólki. Mörg fórnarlömb giftast t.d. aldrei, því ein afleiðing er að þú tapar sjálfstraustinu og missir af möguleikanum að æfa þig í eðlilegum samskiptum við hitt kynið. Fórnarlömb eineltis eru í rauninni rænd öllum mögulegum möguleikum, sem okkur hinum finnst sjálfsögð og eðlileg mannréttindi.
Einelti hefur í rauninni sömu langvarandi áhrif á lífsskilyrði þín og andlega og líkamlega heilsu, rétt eins og alvarlegar afleiðingar af kynferðisofbeldi.
Við skulum hafa þessar staðreyndir með okkur hér á lokametrum þessa langa pistils, en hér verðum við að minnast á fullorðins og vinnustaðaeinelti. það er í rauninni fáránlegt að þurfa að benda fullorðnu hugsandi fólki á hvernig það á að hegða sér á vinnutíma. en því miður berast okkur aftur og aftur fréttir um óvænta og leynilega starfslokasamninga.
Undirritaður er að sjálfsögðu ekki neinn sérfræðingur í vinnustaða einelti, sem oft á tíðum er margslungið og fólkið eigið fyrirbæri, en ég vil samt hér og nú vekja athygli á nokkrum mjög svo HÆTTULEGUM hliðum á leynilegum starfslokasamningum. Þetta á sérstaklega við í minni samfélögum og ekki síst á vinnustöðum, þar sem starfsmenn, sem eru reyndir og vel menntaðir sérfræðingar á sínum sérfræði stjórnsýslu sviðum, neyðast til að vera í samvinnu við kosna pólitíska amatöra og sjálf útnefnda valda besserwissa.
Það er mín meining að t.d. leynilegir bæjar-stjóra / -starfsmanna starfslokasamningar, séu alls ekki af hinu góða, hvorki fyrir bæjarfélagið eða einstaklinginn, sem að öllum líkum er svo slitinn og uppgefin af langvarandi einelti í starfi, að hann gefst hreinlega upp, með slæmri eða góðri hjálp frá verkalýðsfélaginu sínu. Starfsmaðurinn er líklega svo uppgefin og niðurbrotinn og í rauninni tilbúinn að skrifa undir hvað sem er, til að forða sér eins hratt og mögulegt er. Út úr þessu eitraða vinnustaða umhverfi, einfaldlega til þess komast heim, til að sleikja sálarsárin og reyna að byggja upp orku í að sækja um nýtt starf.
Í eftirspili eftir að þessi starfslok með þagnarskyldu samningi beggja aðila er tilkynntur í stuttum innanbæjafréttum, þá byrjar nýtt helvíti fyrir báða aðila, þó oftast verri fyrir nú fyrrverandi starfsmanninn. Því hann má ekki og getur ekki varið sig ljótum orðrómi og kjaftasögum um ástæðu starfsloka. Þessi leyni ákvöð getur, sem slæmur fylgifiskur orðið að nýju einelti, sem hefur veruleg áhrif á t.d. alsaklaus börn og eiginkonu starfsmannsins, sem hafa rótað sig í samfélaginu, sem nú neyðast kannski til selja eignir og flytja frá vinum og vandamönnum.
Bæjarfélagið fær síðan yfir sig holskeflu af fyrirspurnum frá forvitnum fjölmiðlum og öskureiðum kjósendum og skattgreiðendum, með meira en mikið af réttlátum og lýðræðislegu spurningum eins og t.d.:
Hver er í rauninni ástæðan fyrir þessari uppsögn?
Eða, hvað kostar þessi vitleysa?
Svona leynisamningar með þagnarskyldu beggja aðila, getur líka verið samfélagslega stórhættulegt fyrirbæri og vil ég hér í lokin nefna eitt slíkt nýlegt dæmi frá Svíþjóð.
Sænska Ríkissjónvarpsstöðin SVT, er með eindæmum sjálfstæð og pólitískt hlutlaus stofnun og þeir taka oft upp alvarleg málefni í þættinum „Uppdrag granskning.“ Stundum hafa þeir lagt í þetta hálft ár eða meira af djúpt grafandi rannsóknarblaðamennsku og manni hreinlega bregður við það sem þeir oft á tíðum grafa fram og sýna okkur skuggalegu hliðina á ýmsum alvarlegum samfélagsmálum.

Þátturinn fjallar um, lengi vel vinsælan leikfimikennara á lægri stigum grunnskólans, bæði mjög svo ungar stelpur, sem og foreldrar hafa þó í gegnum árin, oft klagað yfir einkennilegri hegðun hans í nálægð hans í búningsklefum skólans. Í staðin fyrir að bæjaryfirvöld sem hafa ábyrgð á skólamálum sínum, rétt eins og heima á Íslandi, er þessum kvörtunum aldrei vísað til rannsóknar hjá Lögreglunni.
Nei, aftur og aftur gera ýmis bæjarfélög leynilega þagnarskyldu starfslokasamninga við hann, til þess að losna úr óþægilegri aðstöðu.
Afleiðingarnar eru minnst sagt hrikalegar og svakalega sorglegar, því hann gat í yfir 20 ár sótt um nýjar kennarastöður og þegar þetta loksins, loksins varð alvöru lögreglurannsókn, kom í laus að í tölvunni hans voru um og yfir 700.000 myndir af nöktum smástelpum í sturtuklefum margra ólíkra skóla. Fórnarlömbin eru fleiri hundruð, ef ekki kringum 1000 og í lok þáttarins verður öllum ljóst gegnum orð frá lögfræði prófessor að þessir svokölluðu trúnaðarmáls starfslokasamningar, með gangnkvræmri þagnarskyldu beggja aðila, er stærsta orsökin á bak við þá staðreynd að fórnarlömbin urðu svona mörg.
Það var einnig augljóst að þegar fólk í ábyrgðarstöðum hjá bæjarfélögum er spurt út í af hverju málin voru aldrei send til Lögreglunnar, koma bara afsakandi svör sem sýna okkur vitleysuna sem liggur í því að bæði kosnir nefndarfulltrúar sem og bæjarstarfsmenn í ábyrgðarstöðum, taka sér í rauninni bæði lögreglu og dómsvald í starfsmanna málefnum.
Undirritaður vil þakka þér og öllum öðrum sem hafa gefið sér tíma til að lesa þennan pistill, en einelti hefur margar hliðar og er svo marg flókið og alvarlegt umræðuefni, að það krefst einfaldlega margra orða. Í rauninni er það þannig farið að þessi skrif hafa verið að mótast í huga mínum í meira en tvo áratugi. Kannski hefur blundað í mér hræðsla, rétt eins og í þér að hreinlega þora að ræða þessi mál og hvað Þá birta þessi orð mín opinberlega. Hér er ég ekki að reyna að segja neitt annað en mína eigin upplifun og túlkun á þeim fjölmörgu sögum og upplifun annarra Siglfirðinga og góðra vina af eineltisáreiti.
Von mín er einungis að þessi orð mín veki þig til umhugsunar og að þú lesandi góður þorir síðan að ræða opinskátt og einlægt við aðra um alvarleikann af afleiðingum eineltis.
Bestu Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.
Sjá einnig stuttan viðbótarpistill hér:
Siglfirskt einelti fær rauða spjaldið!
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni og greinar eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd sem og aðrar myndir:
Eru flestar búnar til með gervigreind Microsoft Bing eða fengnar að láni frá opnum myndabanka Microsoft Office.
ATH. Vitnað er og bent á ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í pistlinum.




