Á 896. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar lágu fyrir upplýsingar um aðila sem sýnt hafa áhuga á rekstri skíðasvæðisins í Skarðsdal í samræmi við auglýsingu sveitarfélagsins.
Alls bárust þrjár umsóknir, en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka og annar hafði hvorki reynslu af sambærilegum rekstri né umráð yfir starfsfólki.
Eftir stóð því áhugi frá þeim aðila sem hafði umsjón með rekstri svæðisins á síðasta tímabili, fyrirtækinu L7 á Siglufirði.
Í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja samþykkti bæjarráð Fjallabyggðar að ganga til samninga við L7 um rekstur skíðasvæðisins í Skarðsdal fyrir tímabilið 2025–2026.



