Nóvemberæfing Slökkviliðs Fjallabyggðar var með nokkuð óhefðbundnu sniði í ár, en slökkviliðsmenn fengu tækifæri til að takast á við útköll og atburði í gegnum sýndarveruleikaheim.
Æfingin fór fram í íþróttahúsi Grunnskólans í Fjallabyggð á Siglufirði, þar sem slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Brunavörnum Suðurnesja stóðu að undirbúningi og framkvæmd í samvinnu við HMS.
Í færslu Slökkviliðs Fjallabyggðar á Facebook segir að æfingarnar hafi reynt á skilningarvit þátttakenda þar sem þeir þurftu að huga að öllum þáttum sem koma við sögu í raunverulegu útkalli. Þó slíkur hermir komi ekki í stað hefðbundinna æfinga sé hann mikilvæg viðbót í æfingarflóru slökkviliðsmanna, sérstaklega hjá hlutastarfandi liði eins og í Fjallabyggð.
Flame sýndarveruleikabúnaðurinn setur slökkviliðsmanninn í aðstæður þar sem hann þarf til dæmis að takast á við elda, og í þeirri vinnu getur eldgalli slökkviliðsmannsins hitnað líkt og gerist við raunverulegar aðstæður.
Að sögn Slökkviliðs Fjallabyggðar var samdóma álit allra þeirra sem tóku þátt að æfingar sem þessar væru afar gagnlegar og verði hluti af árlegu æfingarferli slökkviliðsins.





Myndir: facebook / Slökkvilið Fjallabyggðar



